Kristján Hjaltason, sérfræðingur í sölu- og markaðsmálum hjá Norebo í Evrópu, segir stefnu rússneskra stjórnvalda þá að landið verði sjálfbært á sem flestum sviðum. Það sem einkenni sjávarútveg í Rússlandi er fiskveiðistjórnun og kvóti til langs tíma og samþjöppun í sjávarútvegi.
Fjárfestingar fyrirtækja í Rússlandi hafa verið miklar í vinnslu, á sjó og landi og verðmæti afurða aukist mikið. Þá hafa tekjur ríkisins af sjávarútvegi aukist og nú er fjármögnun greinarinnar möguleg innanlands. Rússneska ríkið hefur haft háar tekjur af uppboði á kvóta. Þannig skilaði 50% af árlegum kvóta fyrir krabba sem boðinn var upp til sex ára tveimur milljörðum dollara.
„Það sem er óvenjulegt við sjávarútveg í Rússlandi er að þar eru stundaðar veiðar jafnt í Atlantshafi og Kyrrahafi. Rússnesk skip veiddu 1,5 milljónir tonna í Norður-Atlantshafi 2017, þar af 400.000 tonn af atlantshafsþorski, 190.000 tonn af kolmunna og 170.000 tonn af atlantshafsmakríl. Veiðin hefur vaxið mjög mikið á síðustu árum,“ segir Kristján.
Veiðar Rússa í Kyrrahafi eru enn meiri. Á árinu 2017 veiddu þeir þar 3,1 milljón tonn, þar af 1.735.000 tonn af alaskaufsa, 417.000 tonn af kyrrahafssíld, 308.000 tonn af villtum laxi og 102.000 tonn af kyrrahafsþorsk. Veiðar Rússa í Kyrrahafi hafa sömuleiðis aukist verulega á síðustu þremur árum.
Örva löndun á ferskum fiski
Kristján segir fiskveiðistjórnunina í Rússlandi svipaða og á Íslandi og öðrum löndum sem við þekkjum. Ákvörðun um heildarafla byggist á rannsóknum vísindamanna á vegum svæðisbundinna rannsóknastofnana og gerðar eru tillögur að heildaraflamarki fyrir einstakar tegundir. Kvóta er nú úthlutað til fimmtán ára en var áður úthlutað til tíu ára.
„Þaða sem hefur breyst í Rússlandi er að tekin var ákvörðun um að örva löndun á ferskum fiski. Kvótar fyrir úthafs- og iðnaðarveiðar voru sameinaðir í einn flokk. Vilji útgerð nota kvóta til strandveiða þarf hún að upplýsa yfirvöld um slíka ákvörðun fyrir upphaf ársins. Þeir sem landa ferskum fiski eiga kost á 20% meiri kvóta. Þetta örvar mjög löndun á ferskum fiski jafnt í Atlantshafinu sem Kyrrahafinu.“
Breytingarnar miða einnig að því að örva fjárfestingar í skipum og verksmiðjum. Rússnesk stjórnvöld fóru þá leið við síðustu kvótaúthlutun að halda eftir 20% kvótans í ákveðnum tegundum sem er endurútdeilt til þeirra fyrirtækja sem endurnýja skip sín eða vinnslur í Rússlandi. Ennfremur var stjórnvöldum veitt heimild til að kalla inn helming af öllum krabbakvóta og selja á uppboði til þeirra fyrirtækja sem eru tilbúin að byggja ný skip til veiðanna.
2019 var 50% af árlegum kvóta fyrir ýmsar krabbategundir, þ.á m. kóngakrabba og snjókrabba, boðinn upp til 15 ára og skilaði uppboðið tekjum upp á tvo milljarða dollara til rússneska ríkisins. Kostnaður fyrirtækjanna á hvert kíló ræðst af veiðinni en verður líklega um sex dollarar á kíló. Fyrirtækin þurfa einnig að smíða ný skip. Þannig varði Antey, eitt stærsta fyrirtækið í krabbaveiðum í Rússlandi, 500 milljónum dollara til að kaupa 7.000 tonna krabbakvóta til næstu 15 ára og fyrirtækið mun láta smíða fyrir sig sjö ný krabbaskip fyrir meira 200 milljónir dollara.
36 skip í smíðum og 22 vinnslur
Kristján sagði að þessi fjárfestingarkvótinn hafi leitt til þess að nú er verið að reisa 14 nýjar landvinnslur við Kyrrahafið, þar af sjö verksmiðjur sem vinna yfir 100 tonn á dag. Þá er verið að smíða ellefu togara sem eru yfir 105 metrar á lengd, fjóra sem eru yfir 80 metrar á lengd og þrjá Kyrrahafsmegin sem eru yfir 35 metrar á lengd. Atlantshafsmegin er verið að reisa sex landvinnslur sem taka á móti 50 tonnum á dag, einni sem tekur á móti 25 tonnum og annari sem tekur á móti 8 tonnum. Þar eru líka í smíðum 25 togarar og línuskip, þar af fjórtán sem eru 80 metrar og lengri, tíu sem eru 55 metrar og lengri og einum sem er yfir 30 metrar.
„Norebo er með tíu skip í smíðum sem tekin verða í notkun í lok þessa árs og næstu ár. Þetta er fjárfesting upp á 690 milljónir dollara. Fyrsta skipið verður Kapitan Sokilov sem er 81,6 sinnum 16 metrar með frystigetu upp á 60 tonn á dag, framleiðslu á fiskimjöli og niðursuðu og plássi fyrir 1.000 tonn af frystum afurðum.“