Við Ísland finnast um 25 tegundir af rækjum. Rækja, stóri kampalampi, er algengasta rækjutegundin við Ísland. Hún er jafnframt sú eina sem hefur efnahagslega þýðingu og fór ársaflinn yfir 70 þúsund tonn þegar mest var.
Almennt er lítil þekking á rækjutegundum sem ekki eru nýttar hér við land en í erindi sem Ingibjörg Jónsdóttir, sérfræðingur á Hafrannsóknastofnun, flytur í húsakynnum stofnunarinnar og nefnist „Rækjutegundir við Ísland“ verður fjallað um nokkrar þeirra t.d. órækju, ísrækju, pólrækju og sabinsrækju. Farið verður yfir helstu einkenni, útbreiðslu, búsvæði og aðra áhugaverða þætti er varða lífsferla þeirra.
Erindið verður flutt kl. 12.30 næstkomandi fimmtudag í fyrirlestrarsal á fyrstu hæð á Skúlagötu 4.
Í frétt á vef Hafró segir alls séu yfir 2000 tegundir af rækjum þekktar úr sjó og ferskvatni. Flestar þeirra lifa í sjó, en aðeins lítill hluti er nýttur. Rækjur halda sig bæði á köldum og heitum svæðum, þær hafa aðlagast ýmsum búsvæðum og er að finna frá yfirborðslögum og niður á 5000 m dýpi.