Gríðarleg aukning hefur orðið í útflutningsverðmæti norskra sjávarafurða á fyrri helmingi þessa árs. Frá janúar til júní voru fluttar út sjávarafurðir fyrir 630 milljarða íslenskra króna sem er fjórðungi meira en á sama tíma í fyrra. Aukningin ein nemur 127 milljörðum ISK. Aukninguna má þakka mikilli eftirspurn á mörkuðum og góðu verði en hagstæð gengisskráning fyrir útflutningsatvinnuvegina hefur einnig hjálpað mikið til.
Eldislaxinn er langmikilvægasta sjávarafurðin en útflutningsverðmæti hans það sem af er árinu nemur 412 milljörðum ISK sem er tveir þriðju af heildarverðmætunum. Fluttur var út ferskur þorskur fyrir 24 milljarða króna og heildarútflutningur þorsks og ýsu nam 86 milljörðum króna.