Uppsjávarskip í Perú hafa veitt tæp 247 þúsund tonn af ansjósu á sex dögum í tilraunaveiðum á vegum perúskra stjórnvalda.
Veiðunum lauk 6. apríl og höfðu staðið yfir frá byrjun mánaðarins. Niðurstöðurnar þykja lofa góðu um viðgang ansjósustofnsins í þessum heimshluta.
Veiðarnar þykja lofa góðu því einungis um helmingur uppsjávarflotans var við veiðar þessa sex daga. Stærð ansjósunnar var um 12 sm sem er lágmarksstærð fyrir veiðarnar. Ansjósan fer að mestu til bræðslu.
Niðurstöðurnar eru mun betri en í síðustu tilraunaveiðum í nóvember á síðasta ári. Þá var meðalstærð ansjósunnar 9,5 sm. Tilraunaveiðarnar fara fram rétt áður en fyrsta ansjósuvertíðin hefst í Perú sem er einmitt á morgun, 9. apríl.
Aflabrestur varð í fyrra þegar ansjósan færri sig á meira djúpsævi og í kaldari sjó. Þarna spila stórt hlutverk veðurfarslegir þættir, eins og hafstraumurinn El Nino.
Búist er við að heildarkvóti fyrir ansjósu verði um 2,5 milljónir tonna sem er í takt við lífmassa stofnsins sem er um 6 milljónir tonna.