Túnfiskur var seldur fyrir metfé á fiskmarkaði í Tokyo í Japan í byrjun ársins. Fiskurinn var sleginn hæstbjóðanda á 1,8 milljónir dollara, eða 233 milljónir ISK.

Túnfiskurinn veiddist úti fyrir ströndum Japans og var 222 kíló. Verðið á fiskinum er um það bil þrefalt hærra en á fyrsta túnfiski sem seldur var á markaðnum í upphafi árs fyrra. Sá var seldur fyrir um 650 þúsund dollara, eða 84 milljónir ISK, og var það hæsta verð sem greitt hafði verið fyrir einn fisk fram að þeim tíma.

Það var framkvæmdastjóri hinnar þekktu Sushi-Zanmai veitingahúsakeðju sem lyfti veskinu nú í byrjun ársins, sá hinn sami og keypti dýra fiskinn í fyrra. Greitt er margfalt markaðsverð fyrir fyrsta túnfisk ársins. Kaupandinn hlýtur heimsathygli fyrir vikið og getur stært sig af því að gera allt til að þjóna viðskiptavinum sem best.

Kílóaverð á túnfiskinum er í kringum eina milljón ISK og væri hann seldur á kostnaðarverði þyrftu gestir veitingahússins að borga 45 þúsund krónur fyrir hverja smásneið.