Heildarveiði á grásleppu á árinu 2024, það er að segja veiðar Grænlendinga, Íslendinga, Norðmanna og Nýfundnalendinga, jafngilti um 23 þúsund tunnum en í hverri tunnu eru 105 kg af grásleppuhrognum. Þetta var um 10% meira en meðaltal undangenginna tíu ára. Þetta er meðal þess sem fram kom á árlegum upplýsingafundi um grásleppumál, LUROMA 2025, sem haldinn var í Kaupmannahöfn fyrr í mánuðinum.

Meðal þátttakenda á upplýsingafundinum var eins og jafnan Landssamband smábátaeigenda, fulltrúar grásleppusjómanna í Grænlandi, Nýfundnalandi og Noregi og framleiðendur frá Danmörku, Íslandi og Svíþjóð en fundurinn hefur verið árviss viðburður frá árinu 1989. Á fundinum nú kom fram að Grænlendingar hafa á síðustu árum verið að auka hlutdeild sína í heildarafla og er árið í fyrra engin undantekning. Hlutur þeirra þá var sá mesti frá upphafi, 63%, að sögn Arnar Pálssonar, framkvæmdastjóra Landssambands smábátaeigenda. Hann segir hlut Íslendinga hafa minnkað á síðastliðnum árum og var hann kominn niður í 31% í fyrra. Að meðaltali er hlutur Grænlendinga síðastliðin fimm ár 53% en Íslendinga 41%.

Frá 30 kg upp í 57 tonn á bát

„1987 og 1988 komu tvær vertíðir í röð sem í raun veiddist allt of mikið á Íslandi og á Nýfundnalandi. Þá voru þetta eingöngu fulltrúar sjómanna frá Íslandi og Nýfundnalandi. Í framhaldinu fóru að taka þátt í fundunum fulltrúar framleiðenda kavíars. Tilgangurinn var sá að miðla uppýsingum um veiðimagn og um meðferð vörunnar. Þessir fundir, sem LS hefur haft veg og vanda að, hafa verið mjög gagnlegir í gegnum tíðina,“ segir Örn.

Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.
Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.

Á fundinum í fyrra greindi LS fundarmönnum frá því að til stæði að kvótasetja grásleppu á Íslandi. Þá þegar lá fyrir frumvarp um málið en á fundinum sem haldinn var 7. febrúar síðastliðinn lá það fyrir og skýrt frá að 240 bátar fengju aflamark, „allt frá 30 kílóum og upp í 57 tonn ef miðað er við sama magn og veiða mátti á síðasta ári,“ segir Örn. Hann viðraði þær áhyggjur sínar að um væri að ræða að meðaltali 16 tonn á bát á móti þeim 28 tonnum sem voru á síðustu vertíð. Þetta muni leiða til þess að mun færri muni fara á veiðar því þeir fengju það lítið að það borgaði sig vart að fara af stað. Örn segir að fundurinn hafi viðrað þær áhyggjur sína að veiðarnar á yfirstandandi ári yrðu ekki nægar til þess að tryggja markaðnum það magn sem hann þarf.

14.000 tunnur frá Grænlandi

Örn bendir á að fyrirkomulagið á Grænlandi sé með þeim hætti að gefinn er út leyfilegur heildarafli eins og á Íslandi. Þar er veiðinni skipt niður á svæði og byrjað syðst á Grænlandi og heldur veiðin svo áfram norður eftir landinu á fleiri svæði. Þegar útgefið magn hefur verið veitt á hverju svæði er því lokað fyrir veiðum. Náist ekki allt það magn innan tilskilins tíma færist það á næsta svæði fyrir norðan. „Grænlendingar búast við því að afraksturinn geti orðið í kringum 14.000 tunnur á þessu ári en miðað við hæga aukningu á undanförnum þremur árum í magni þyrfti helst að tryggja yfir 20 þúsund tunnur inn á markaðinn.“

Ekki er ljóst hver ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar í grásleppu verður fyrr en í mars næstkomandi. Á síðustu vertíð var leyft að veiða 4.030 tonn. Aflinn endaði í 3.700 tonnum sem skilaði sér í 7.050 tunnum af hrognum. „En verði lög um kvótasetningu grásleppu látin fram ganga og ráðgjöfin óbreytt, má búast við að veiðin verði mun minni. Þetta óttast menn og það líka að grásleppuveiðar færist á mun færri hendur en verið hefur. Fram til þessa hafa veiðarnar verið einskorðaðar við minni báta en í lögunum eru engin stærðarmörk. Eftir því sem bátarnir verða stærri sem stunda þessar veiðar þurfa þeir meira til sín og koma til með að kaupa upp þær heimildir sem eru á minni bátunum,“ segir Örn.