Í erindi sínu á aðalfundi félagsins síðastliðinn föstudag nefndi Guðmundur Kristjánsson, forstjóri HB Granda, þann hluta ágóða fyrirtækisins sem ekki er greiddur út til hluthafa „kyrrsettan ágóða“, og hann mætti nýta til uppbyggingar.

Á aðalfundinum var samþykkt að arðgreiðslur yrðu 1 króna á hvern hlut, eða samtals rétt rúmlega 1,8 milljarðar króna.

Í ársskýrslu HB Granda, sem kynnt var í lok febrúar, kom fram að hagnaður fyrirtækisins árið 2018 hefði numið um 4.1 milljörðum króna. Þar með verða um 2,3 milljarðar af ágóða ársins kyrrsettir til frekari uppbyggingar.

„Félag sem er með gott eigið fé sem kemur frá „kyrrsettum ágóða“ skiptir miklu máli í mínum huga,“ sagði Guðmundur í erindi sínu. „Þegar fyrirtæki skilar hagnaði greiðir það einn hluta hans í arð til eigenda en annar hluti hans verður eign félagsins og notaður í frekari uppbyggingu þess. Það er kyrrsettur ágóði.

Við höfum tækifæri á að vaxa af sjálfsdáðum sem oft er kallaður innri vöxtur. Við getum fjárfest í markaðssetningu sem getur hækkað okkar afurðaverð.

Í dag er verð á kílói af karfa og ufsa 2 evrur og þorski 3,5 evrur. Fyrir kíló af eldislaxi fást 6 evrur í dag. Í mínum huga er villtur fiskur úr Atlandshafi góð afurð og ég er sannfærður um að hægt sé að hækka verðmæti þessara fisktegunda.“

[email protected]

Leiðrétting: Fyrir mistök var í þessari sömu frétt, sem birtist í Fiskifréttum í dag, ekki rétt tala höfð um ágóða HB Granda á síðasta ári. Beðist er velvirðingar á því.