Undanfarin fiskveiðiár hefur ýsuafli krókaaflamarksbáta verið langt umfram 15% aflahlutdeild þeirra í þessari fisktegund. Síðustu sex árin, að núverandi fiskveiðiári meðtöldu, hafa krókaflamarksbátar veitt að meðaltali um 22% af ýsuafla landsmanna, eða frá 18% og upp í um 26%, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.
Þetta skýrist með því að kvóti hefur verið leigður úr aflamarkskerfinu niður í krókaaflamarkskerfið. Einnig hefur línuívilnun sitt að segja. Frá og með fiskveiðiárinu 2005/2006 til núverandi fiskveiðiárs, þ.e. fram til 4. júlí, hafa krókaaflamarksbátar veitt alls um 89 þúsund tonn af ýsu miðað við óslægt, þar af hafa þeir leigt um 22 þúsund tonn úr stóra kerfinu.
Í frumvarpi ríkisstjórnarinnar um breytta fiskveiðistjórnun er lagt til að leiga úr aflamarkskerfinu niður í krókaaflamarkskerfið verði bönnuð. Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, segir að nái þetta fram að ganga yrði það algert rothögg fyrir margar smábátaútgerðir.
Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.