Í gær bárust þær upplýsingar frá Grænlandi að yfir 22% samdráttur væri milli ára í grásleppuveiðunum.  Veiðin 2012 stefni í að vera nálægt 10 ára meðaltali, eða í kringum 8 þúsund tunnur, að því er fram kemur á vef Landssambands smábátaeigenda.

Veiðarnar í ár byrjuðu mun seinna en á síðustu tveimur árum. Aðalástæður þess voru mikill ís, gríðarlegur loftkuldi og óvanalega stormasöm veður.  Vertíðin reyndi því mjög á veiðimenn, en sjónarmið þeirra í stöðunni er athyglisvert: náttúran hefur þá meiru úr að spila úr í framhaldinu.

Línur fara nú að verða býsna skýrar um grásleppuvertíðina 2012.  Mikill samdráttur í Noregi, svipaður afli milli ára á Íslandi, yfir fimmtungs samdráttur á Grænlandi og sama og síðustu 6 ár á Nýfundnalandi, nálægt núllinu.

,,Í ljósi þessa verður það enn furðulegra að kaupendur hrogna skulu ganga hart eftir verðlækkunum á þeim hrognum sem enn eru til á Íslandi. Það verður alla vega ekki skýrt með„ofveiði“, hvorki hér né annars staðar," segir ennfremur á vef LS.