Um síðustu mánaðamót opnaði Fiskistofa fyrir umsóknir um leyfi til túnfiskveiða á árinu. Leyfi ná til veiða á bláuggatúnfiski á tímabilinu frá 1. ágúst til ársloka.

Í reglugerð um veiðar á bláuggatúnfiski, sem birt var í byrjun mars, er ekki gert ráð fyrir heimild til þess að leigja erlend skip til veiðanna þrátt fyrir að heimild þess efnis hafi verið samþykkt á Alþingi í júnísíðastliðnum. Sett var bráðabirgðaákvæði í lögin um að heimilt verði að „taka á leigu erlent skip, til allt að sex mánaða hvert almanaksár, til veiða og vinnslu samkvæmt veiðiheimildum Íslands á austur-atlantshafsbláuggatúnfiski innan og utan íslenskrar fiskveiðilandhelgi.“

Í reglugerðinni er hins vegar tekið fram að ef fullnægjandi umsókn um veiðar á bláuggatúnfiski hefur ekki borist til Fiskistofu fyrir 1. júní næstkomandi muni matvælaráðuneytið kanna hvort hægt verði að framselja hluta af íslensku hlutdeildinni til annarra ríkja innan ICCAT.

Bráðabirgðaákvæðið verður í gildi til ársloka 2028 og var sett inn í lögin til þess að stuðla að því að íslenskar veiðar á bláuggatúnfiski hefjist á ný, enda þurfi þær veiðar sérútbúin skip sem ekki eru til reiðu á Íslandi sem stendur, eins og segir í greinargerð með frumvarpi.

Mikið í húfi

Íslenskum skipum er heimilt að veiða alls 224 tonn af bláuggatúnfiski á árinu 2023 miðað við afla upp úr sjó. Þar af er 212 tonnum úthlutað til línuveiða og 12 tonnum vegna áætlaðs meðafla íslenskra skipa á bláuggatúnfiski.

Af alls 1.292 tonna kvóta sem Ísland hefur fengið úthlutað frá því það gerðist aðili að túnfiskráðinu 2002 hafa veiðst á milli 80-90 tonn af þessum verðmæta fiski á þessum tveimur áratugum, jafnt í beinum veiðum og í meðafla. Þetta er ekki nema 6-6,7% af úthlutuðum kvóta. Mikil eftirsókn er eftir kvótunum og sú hætta fyrir hendi að þeim verði ráðstafað annað séu þeir ekki nýttir.

Það sem er í húfi fyrir Ísland er túnfiskkvóti Atlantshafstúnfiskráðsins sem mikil eftirsókn er eftir. Ljóst sé að nýti Íslendingar ekki kvótann ár eftir ár geri aðrar þjóðir kröfur um að fá hann, til að mynda Evrópusambandið og Norðmenn.