Fjárfestingar í fiskveiðum, fiskvinnslu og þjónustu við fiskveiðar námu 211 milljörðum á árunum 2008-2019 (á verðlagi ársins 2019). Mest var fjárfest í bátum og skipum, eða samtals fyrir 108 milljarða en fjárfestingar í fiskvinnslu nema 97 milljörðum króna. Í þjónustu við fiskveiðar nemur fjárfestingin sex milljörðum króna á tímabilinu.

Þetta kemur fram í skýrslunni Staða og horfur í íslenskum sjávarútvegi og fiskeldi, sem kom út nýverið.

Þar segir að fjárfestingarnar hafa verið nokkuð sveiflukenndar og skera árin 2015- 2017 sig nokkuð úr en þá var fjárfest samtals fyrir 105 milljarða króna, þar af fyrir 54 milljarða í nýjum skipum.

„Líkt og í öðrum atvinnugreinum ráðast fjárfestingar í sjávarútvegi af framtíðarhorfum og væntum ávinningi, en einnig af afkomu undanfarinna ára. Þær fjárfestingar sem ráðist hefur verið í á undanförnum árum hafa verið nauðsynlegar vegna þess hve fiskiskipastólinn var orðinn gamall, en auk þess hafa þær gert fyrirtækjum mögulegt að innleiða nýja tækni og skipulag um borð í skipunum og draga úr eldsneytisnotkun,“ segir í skýrslunni.

Enn frekari fjárfestingar í skipum og vinnslum hafa komið til síðan. Er þar skemmst að minnast komu nýs Vilhelms Þorsteinssonar EA, skips Samherja. Systurskipið Börkur NK er rétt ókominn heim og síðar á árinu kemur frystitogari Nesfisks, Baldvin Njálsson, til heimahafnar. Þessi skip kosta 15 til 17 milljarða króna samtals.