Árið 2011 var ár hrikalegra andstæðna í laxeldi í heiminum. Verð á laxi hrundi á seinni hluta ársins vel niður fyrir framleiðslukostnað eftir að hafa verið í hæstu hæðum fyrri hluta árs, að því er fram kemur í frétt á fishupdat.com.

Þegar leið á síðasta ár sáu laxeldismenn methagnað fjúka út í veður og vind og fjárfestar sneru baki við laxeldi með þeim afleiðingum að gengi sumra laxeldisfyrirtækja lækkaði um 50-70%  frá því sem það var hæst nokkrum mánuðum fyrr.

Þrátt fyrir þessar hremmingar horfa laxeldismenn bjartsýnum augum á árið 2012. Margt bendir til þess að greinin sé að rétta úr kútnum. Verð á hlutabréfum í laxeldisfyrirtækjum hefur nú hækkað um 20% að meðaltali. Verð á laxi og laxaafurðum hefur einnig hækkað töluvert frá því sem það var lægst í október síðastliðið haust.

Norskir laxeldismenn og kollegar þeirra í Skotlandi velta því nú fyrir sér hvort þeir þurfi að mæta aukinni samkeppni frá Síle í ár. Laxeldi í Síle er að ná sér eftir mikil skakkaföll vegna sjúkdóma. Framleiðslan þar var um 125 þúsund tonn árið 2010 en gert er ráð fyrir að framleiðslan verði yfir 300 þúsund tonn í ár. Í fyrra fóru um 90% af aukningunni í Síle á markaði í Suður-Ameríku og Bandaríkjunum og einnig til Asíu. Hætt er við því að lax frá Síle komi einnig í vaxandi mæli inn á markaði í Evrópu og lendi þar í samkeppni við lax frá Noregi.