Hæstiréttur Skotlands hefur dæmt fjóra skoska skipstjóra til að greiða sem svarar samtals 220 milljónum íslenskra króna fyrir að landa makríl framhjá vigt með kerfisbundnum hætti. Skipstjórinn á skoska fiskiskipinu Quantas þarf að greiða langhæstu fjárhæðina, eina milljón sterlingspunda eða jafnvirði um 200 milljóna króna.

Rétturinn kallar athæfið skipulagða glæpastarfsemi sem refsa þurfi harðlega fyrir. Sex  skipstjórar til viðbótar koma fyrir réttinn 16. júlí næstkomandi auk forsvarsmanna eins þeirra fyrirtækja sem þátt tóku í svindlinu.

Skosk yfirvöld áætla að á árunum 2002-2005 hafi fiskimenn frá Skotlandi og Hjaltlandi ásamt fiskvinnslufyrirtækjum í landi svikið undan makríl að verðmæti sem svarar 10 milljörðum íslenskra króna. Réttarhöld vegna málsins hafa staðið síðan á árinu 2011 og margir skipstjórar og fyrirtæki hafa viðurkennt svikin.