Strandveiðitímabilið hefst nú um mánaðamótin apríl/maí og er þetta þriðja sumarið sem  frjálsar  handfæraveiða eru leyfðar yfir sumartímann.  Heimilt er að  veiða alls  sex þúsund tonn af botnfiski á landinu öllu og er aflanum skipt milli mánaða frá maí til ágústloka. Veiðisvæðin umhverfis landið eru fjögur talsins.

Sækja þarf sérstaklega um strandveiðileyfi til þess að taka þátt í veiðunum og  falla þá öll önnur  veiðileyfi niður til loka fiskveiðiársins. Alls hafa um 200 aðilar þegar sótt um leyfi.  Til samanburðar voru um 740 bátar sem stunduðu strandveiðarnar í fyrrasumar og rúmlega 550 bátar  sumarið 2009.

Fiskistofa hefur sett upp gagnvirka töflu á vef stofunarinnar þar sem  hægt er að nálgast yfirlit yfir afla og landanir í strandveiðum undangengin tvö sumur skipt niður eftir mánuðum og veiðisvæðum.  Þar verður einnig hægt að fylgjast með fjölda strandveiðiskipa og landana ásamt aflabrögðum frá degi til dags í sumar.  Þar má því fletta upp á hver staðan er með tilliti til hve langt verður komið með að ná  upp í leyfilegan heildarafla á hverjum stað og tímabili. Tafla þessi er hér.

Nánari upplýsingar um strandveiðileyfi og leiðbeiningar um umsóknarferilinn er að finna á vef Fiskistofu .