Mjög góð veiði hefur verið línubátum að undanförnu og er Vésteinn GK þar engin undantekning. Guðmundur Theodór Ríkharðsson skipstjóri segir að eftir að þeir komust suður fyrir Grindavík eftir óveðrakaflann hafi veiðin verið glimrandi góð rétt fyrir utan Grindavík.
Tvílandað
„Við höfum verið þarna rétt fyrir utan við Hópsnesið svo hæg eru heimatökin,“ segir Guðmundur. Á sunnudaginn var mokveiddist og þurfti að fara tvisvar í land þann dag til að landa. „Það er stutt í land og það fer betur með aflann að gera þetta svona. Við erum lítið fyrir það að troða í bátana,“ segir Guðmundur. Aflinn er unninn hjá Einhamri Seafood sem er einn öflugasti útflytjandi ferskfisks frá landinu. Þaðan er veiðunum stýrt svo hráefnið sé alltaf í hæstu gæðum.
Tólf tonnum var landað í fyrri lönduninni á sunnudag og í framhaldinu voru dregin átta tonn úr sjó og landað sama dag. Alls gaf dagurinn því 20 tonn af vænum þorski sem að meðaltali vóg nálægt 6-7 kílóum hver. „Þetta var boltaþorskur, mjög fallegur fiskur en þannig séð var ekki mikið í honum. Yfirleitt á þessum árstíma er hann útsprengdur af loðnu og öðru æti. En það er greinilega eitthvað lítið um það núna. Við erum heldur ekki vanir að geta verið svona grunnt á þessum tíma. Það er greinilegt að það hefur verið lítið af loðnu og hún hefur farið hratt yfir.“

Hann segir að það hafi verið líka mjög góð veiði út af Sandgerði en þá hafi togbátarnir lítið verið að fá en mokstur á línuna. „Það segir manni bara að það vanti æti, fiskurinn er dreifðari og óhentugri í trollið.“
Hrygning að detta á
Guðmundur segir hrygningu vera að detta á um þessar mundir. Hann hafi séð svilin sprautast úr hængum og svo virðist sem allt sé til reiðu fyrir árvissa fjölgun. Þeir á Vésteini GK leggja eina lögn með 17 þúsund krókum. Áður voru þeir með 20 stutta rekka en þeir eru nú 18 talsins og fækkaði þá krókunum. Línan er líka dregin hægar og segir Guðmundur þetta hafa komið vel út. Ekki síst þar sem það kemur iðulega ýsubland með stórum þorski og þá má ekki draga of hratt því þá er hætta á því að rífa fiskinn af króknum. Guðmundur segir kvótastöðuna alveg þokkalega, Alda Gylfadóttir haldi utan um þau mál og það kunni hún upp á hár. Það er líka passað upp á að vera með ekki of mikinn fisk í geymslunum í þeirri óvissu sem ríkir varðandi eldgos sem sagt er vera á næsta leiti.
„Það er líka stutt í land og þegar vantar fisk í vinnsluna er einfaldlega kallað í okkur,“ segir Guðmundur.