Norðmenn hafa lokað flestum dyrum fyrir samstarfi við Rússland í kjölfar innrásar þeirra í Úkraínu. Einar dyr standa þó opnar og það eru samningaviðræður um veiðar í Barentshafi. Þar eru í húfi gríðarlegir hagsmunir sem fyrir Noreg sem taldir eru hlaupa á tíu milljörðum NOK, 127 milljörðum ÍSK. Nú hafa náðst samningar milli þjóðanna um að heildarkvóti í norðuríshafsþorski verði 453.400 tonn sem er 20% samdráttur frá yfirstandandi ári.
Heildarkvótinn 566.700 tonn
Þjóðirnar hafa allt frá áttunda áratugnum samið um gagnkvæmar fiskveiðar á hafsvæðinu en þegar gengið var til samninga í fyrra hótuðu Rússar því að slíta öllu samstarfi eftir að Norðmenn settu hafnarbann á rússnesk skip í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu. Hótuninni var þó ekki fylgt eftir og nú hafa samningar náðst. Heildarkvótinn á þessu ári er 566.784 tonn þannig að samdrátturinn milli ára verður verulegur.
Myndu mæla með 37% niðurskurði
Þjóðirnar hafa sammælst um að kvóti verði ekki lækkaður eða hækkaður um meira en 20% milli ára og þrjú undanfarin ár hefur hann lækkað á hverju ári um 20%. Norska hafrannsóknastofnunin telur reyndar innistæðu fyrir því að draga enn frekar úr veiði.
„Ef þessi 20% regla væri ekki í gildi væru ráðleggingar okkar 37% samdráttur í veiðum sem þýðir 100.000 tonnum minni veiði en ráðleggingar okkar eru fyrir yfirstandandi ár,“ segir Geir Huse hjá Norsku hafrannsóknastofnuninni.
Viðvarandi nýliðunarbrestur
Ástæða þessa er stöðugt minni nýliðun í þorskstofninum sem nær aftur til fjölda ára. Huse segir að þessi þróun hafi raunar staðið yfir síðustu tíu ár. Þegar svo standi á og nýliðun sé svo léleg sé mikilvægt að bregðast við með minni veiðum.
Staðreyndin er hins vegar sú að vísindamenn þekkja ekki til fulls hvað veldur þessum bresti í nýliðun. Ein kenningin er sú að minna er um svif á uppeldisstöðvum vegna breytinga á hafstraumum milli Noregshafs og Barentshafs. Önnur er sú að hrygningarslóðir þorsks hafi færst til svæða þar sem uppeldisskilyrði þorsks eru verri. Sú þriðja er afrán. En jafnframt er bent á að umhverfisáhrifum sé um að kenna. Hlýnun hafsins leiði til þess að þorskur leiti norðar. Allt eru þetta kenningar og vísindamenn viðurkenna að orsakasamhengið sé óljóst.
Hæsti loðnukvóti frá 2018
Samningur þjóðanna felur í sér að heildar þorskvótinn skiptist milli þeirra og þriðjalands eftir sömu reglum og áður hefur gilt. Hlutur Norðmanna verður 212.000 tonn á næsta ári. Heildar ýsukvótinn verður 141.000 tonn og hlutur Norðmanna verður 70.600 tonn. Þá verður heildar loðnukvótinn í Barentshafi á næsta ári 196.000 tonn sem er aukning um 134.000 tonn frá yfirstandandi ári. Þetta er hæsti loðnukvóti sem gefinn hefur verið út síðan 2018. Hlutur Norðmanna verður 117.500 tonn.
Veiðar Íslendinga í Barentshafi
Samkvæmt reglugerð Matvælaráðuneytisins var íslenskum skipum heimilt að veiða um 4.000 tonn á þessu ári af norðuríshafsþorski Noregsmegin í Barentshafi. Áður var þeim einnig heimilt að veiða svipað magn í rússneskri lögsögu samkvæmt reglugerð sem byggir á samningi milli Íslands, Noregs og Rússlands frá 1999 til lausnar Smugudeilunni. Samningurinn við Rússa er útrunninn og hefur ekki verið endurnýjaður þrátt fyrir ítrekuð tilmæli Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Miðillinn Heimildin fjallaði um það í sumar að íslensk stjórnvöld hafi í tvígang lýst því yfir að ekki komi til greina að semja við Rússa. Ótækt sé að taka upp samningaviðræður við Rússa á sama tíma og íslensk stjórnvöld deili hart á þarlend yfirvöld fyrir ólögmæta innrás og stríðsglæpi í Úkraínu.
Grípa gæsina meðan færi gefst
Ljóst er að fimmtungs niðurskurður í þorskveiðum í Barentshafi muni draga úr framboði á þorskafurðum á heimsvísu. Það er ekki síst þessi staða sem Örn Pálsson, formaður Landssambands smábátasjómanna, vísaði til á aðalfundi samtakanna fyrir skemmstu þegar hann mælti fyrir breyttri aflareglu: „Hafrannsóknastofnun fylgir aflareglu sem stjórnvöld hafa sett. Þessari aflareglu geta þau breytt með einu pennastriki. Þannig væri hægt að bæta við þegar ástand er gott eða markaðaðstæður eru okkur hagstæðar. Svo vill til að hvoru tveggja er fyrir hendi um þessar mundir. Norðmenn munu draga saman þorskveiðar og því losnar pláss á markaðinum sem við eigum að nýta. Stjórnvöld bera ábyrgð með því að setja aflareglu. Þau eiga við þessar aðstæður að í stað 20% af veiðistofni verði miðað við 23%. Við það myndi leyfilegur heildarafli hækka um 16 þúsund tonn og gjörbreyta stöðunni.“