Matvæla- og veitingahúsakeðjan Onodera Group í Japan leggur metnað sinn, eins og fleiri stórfyrirtæki þar í landi, í að greiða sem hæst verð fyrir fyrsta bláuggatúnfiskinn sem berst á land á hverju ári. Onodera stóð uppi sem sigurvegari í tilboðsstríði þessa árs, eins og í fyrra, og greiddi 207 milljónir japanskra jena, rúmar 184 milljónir króna, fyrir fyrsta túnfiskinn sem var boðinn upp á Toyosu fiskmarkaðnum í Tókíó 6. janúar síðastliðinn en fiskurinn vó tæp 276 kg. Það gerir kílóverð upp á rúmar 666.000 ÍSK.
Þetta er annað hæsta tilboð sem tekið er í fyrsta túnfisk ársins í sögu þessara uppboða. Bjóðendur ganga að þessu háa verði og nýta sér umtalið í kringum uppboðið til að auglýsa sig og starfsemi sína.
Onodera samstæðan vann einnig fyrsta uppboðið í fyrra og greiddi þá andvirði tæpra 105 milljóna ÍSK fyrir fyrsta fiskinn. Þetta var fimmta skiptið í röð sem fyrirtækjasamstæðan vinnur uppboðið.
377 milljónir 2019
Gefin var út sérstök fréttatilkynning af hálfu Onodera í tilefni af þessum glæsta sigri: „Enn á ný nutum við einstæðs samstarfs Yukitaka Yamaguchi, forstjóra Yamauki heildsölunnar hjá Toyosu fiskmarkaðnum. Við viljum færa honum einlægt þakklæti frá okkur,“ sagði í fréttatilkynningunni.
Þessi rándýri túnfiskur verður borinn fram á fjölda veitingastaða í fjölda landa, þar á meðal á veitingastöðum Onodera, Ginza Onodera.
Eina skiptið sem hærra verð hefur fengist fyrir fyrsta túnfisk ársins var 2019 þegar sushi-keðjan Sushi Zanmai greiddi andvirði 377 milljóna ÍSK fyrir 277 kg fisk. Forstjóri Suzhi Zanmai, Kiyoshi Kimura, sagði á þeim tíma að sæi sárlega eftir því að greiða svo hátt verð fyrir fiskinn. En alveg frá því uppboðinu lauk og til dagsins í dag er hans minnst í japönskum fjölmiðlum sem methafa í sögu þessa merkilega uppboðs.