Alls veiddust rúm 18.000 tonn af ókvótabundnum tegundum á síðasta fiskveiðiári. Úthafsrækja vó þar þyngst. Afli hennar á hefðbundnum veiðisvæðum fyrir norðan land nam 5.100 tonnum og af rækju í Kolluál veiddust 1.700 tonn, eða samtals 6.800 tonn. Nú eru þessar veiðar komnar í kvóta á ný eins og kunnugt er.
Grásleppan nýtur þeirrar sérstöðu að veiðar á henni eru bundnar sérstöku leyfi en grásleppuaflinn nam 3.900 tonnum á fiskveiðiárinu.
Sú tegund sem kemur næst er hlýri, en á fiskveiðiárinu 2013/2014 var aflinn 2.317 tonn og jókst lítillega frá fyrra fiskveiðiári. Næst kemur tindaskata með 1.552 tonn og lýsuaflinn var 1.027 tonn.
Sjá nánar töflu á vef Fiskistofu.