Tölfræðilegar niðurstöður í árskýrslu vottunarfyrirtækisins MSC benda til þess að 15,48 milljónir tonna af sjávarafurðum hafi verið MSC-vottaðar afurðir. Þar segir ennfremur að 716 fyrirtæki í 63 löndum um víða veröld taki þátt í starfi MSC og að 19,3% af öllum veiddum, villtum fiski, hafi verið veiddur af fyrirtækjum sem eru tengd MSC.

„Samkvæmt nýjustu tölum eru 572 fiskfyrirtæki út um allan heim með vottun frá MSC, 85 eru í vottunarferlinu, 34 uppfylla ekki skilyrði fyrir vottun sem stendur og 25 eru í aðlögunarferli til að geta undirgengist vottun frá MSC síðar meir,“ segir í frétt frá MSC.

Ársskýrsla MSC fyrir 2023-2024 kom út nýverið. Í ávarpi í skýrslunni segir formaður MSC, Rupert Howes, að þrátt fyrir efnahagserfiðleika út um allan heim hafi MSC á seinasta ári séð mikla þrautseigju og stöðugleika í sjálfbærum sjávarútvegi. Hann þakkaði það meðal annars miklum áhuga markaðsaðila að mæta aukinni eftirspurn neytenda eftir sjálfbærri matvöru.