Blámar var stofnað árið 2011 en Pálmi Jónsson og Valdís Fjölnisdóttir tóku við fyrirtækinu í desember 2015 til að framleiða ferskan fisk í neytendapakkningar. Sérstaða fyrirtækisins eru pakkningarnar sem kallast skinnpakkningar. Það hefur nú haslað sér völl með um fimmtán vörutegundir en stærsti hluti framleiðslunnar er seldur til útlanda.


Eigendur Blámar eru Pálmi og Valdís.  „Við fréttum af skinnpakkningum sem eru nýjung á markaðnum. Þó hafa pakkningar af þessu tagi verið notaðar í Bandaríkjunum og Bretlandi en við erum fyrsta fyrirtækið á Íslandi sem tileinkum okkur þær undir íslensku merki,“ segir Pálmi.

Aðferðin felst í því að filma er mótuð í bakka í vél og sama vél leggur síðan aðra þynnri filmu yfir fiskinn sem er kominn í bakkann. Pakkinn er lofttæmdur og þessi pökkunaraðferð tryggir umtalsvert lengri hillutíma.

Marinneraðir þorskhnakkar og lax

„Þá er seinni hluti frágangsins eftir sem felst í því að gera vöruna skemmtilega. Við lögðum mikið upp úr hönnun vörumerkingarinnar og gera hana aðlaðandi fyrir viðskiptavininn. Þarna skipa litasamsetningar miklu máli og tilgangurinn er að varan grípi athygli viðskiptavinarins,“ segir Valdís.

Um er að ræða fimmtán vörutegundir en átta þeirra eru fáanlegar í verslunum Hagkaups á Íslandi. Stöðugt bætist við vörutegundirnar, núna síðast marineraðir þorskhnakkar og lax, vara sem er tilbúin beint á grillið. Vinsælastu tegundirnar eru kryddjurtir og pestó, terryaki og sítrónu/kórander.

„Það vissulega mikið framboð af marineruðum fiski í fiskbúðum en þessi pakkningaraðferð gerir marineringuna enn áhrifameiri á sama tíma og gæðin á fiskinum haldast lengur í lofttæmdum umbúðunum,“ segir Pálmi.

Í IRMA og Hong Kong

Líftími vörunnar er allt upp undir tólf dagar og laxins enn meiri, eða hátt í fjórtán daga. „Þess vegna gefur þessi vinnsla mikil tækifæri til útflutnings þar sem hver dagur skiptir máli. Við erum að flytja núna út til fjögurra verslunarkeðja í Hong Kong. Lítil pöntun hjá þeim er rúmlega ársveltan á innanlandsmarkaði. Við seljum líka í IRMA verslunarkeðjuna í Danmörku í alls 80 verslanir,“ segir Valdís.

Varan frá Blámar er flutt fryst sjóleiðina til Hong Kong og til Danmerkur. Afþíddur er hann jafnvel ferskari en fiskur út úr fiskbúð sem hefur verið til í fiskborðinu í þrjá daga.

Lítil yfirbygging

Lítil yfirbygging er á fyrirtækinu. Það leigir aðstöðu hjá Sjófiski á Eyjarslóð þar sem er skrifstofuaðstaða á efri hæð og vinnslulína á þeirri neðri. Þar er ein flökunarvél, ein skurðarvél og síðan pökkunarvélin sjálf og vél sem límir borða á bakkann. Fimm manns starfa við pökkunina en fara upp í níu manns þegar álagstímar eru. Styttra gæti ekki verið í aðföngin því mestallur þorskur og hluti ýsunnar er fenginn frá Sjófiski sem er í sama húsi en önnur aðföng koma annars staðar frá. Pakkningin er 250 til 300 grömm. Flökin eru fullnýtt því það sem er afgangs er nýtt til framleiðslu á plokkfiski og fiskbollum svo dæmi séu tekin.

Sýningargluggi út í heim

Pálmi segir að þrátt fyrir að innanlandsmarkaðurinn sé enn sem komið er fremur lítill skipti hann fyrirtækið miklu máli og er eins og sýningargluggi út í heim.

„Það skiptir okkur líka miklu máli að geta boðið Íslendingum álíka góða vöru og við erum að bjóða erlendum viðskiptavinum okkar,“ segir Pálmi.

Viðskiptin við verslunarkeðjuna í Hong Kong kom þannig til að aðili frá henni var staddur á Íslandi sem ferðamaður og sá vöruna frá Blámar og neytti hennar. Í framhaldinu hafði hann samband við fyrirtækið og viðskipti komumst á. Viðskiptatengslin við IRMA urðu með svipuðum hætti.

Blámar hefur nú náð viðskiptatengslum við verslanakeðjur í Kanada og í Bandaríkjunum en auk þess Sjanghæ í Kína. Það er því líklegt að starfsemin eigi eftir að vinda mikið upp á sig á næstunni en enn sem komið er hefur fyrirtækið undan eftirspurn.

„Það sem við höfum umfram samkeppnisaðila erlendis er að hér er fiskinum pakkað um leið og hann kemur í hús. Erlendis er það algengt að fisknum sé fyrst pakkað í frauðplast, hann síðan sendur út og þá loks pakkaður í skinnpakkningu. Þar með hafa þeir glatað tveimur dögum í líftími þegar fiskurinn kemur á markað,“ segir Pálmi.