Nýlega var skýrt frá því að 40 ár væru liðin síðan Börkur NK sem nú heitir Birtingur NK hefði komið til landsins og jafnframt tilgreint að hann hefði veitt tæplega 1,5 milljónir tonna á ferli sínum (nákvæmlega 1.488.299 tonn). Birtingur hóf síðan loðnuveiðar í byrjun febrúar og hefur fiskað vel. Hinn 9. mars landaði hann 850 tonnum af loðnu í Helguvík og hefur þá veitt 11.944 tonn á vertíðinni.
Löndunin 9. mars markaði tímamót því með henni var 1,5 milljón tonna markinu náð. Nú hefur skipið flutt að landi 1.500.293 tonn á þeim rúmu 40 árum sem það hefur verið gert út frá Neskaupstað og er ekki vitað til þess að annað íslenskt skip hafi borið jafn mikinn afla að landi.
Mestur afli skipsins á einu ári var 83.825 tonn árið 2003. Á vef Síldarvinnslunnar má sjá afla skipsins á hverju ári frá upphafi.