ff

Um 1,5 milljón tonn af makríl mældust innan íslenskrar efnahagslögsögu í sumar eða um 29% af heildarmagninu á rannsóknasvæðinu í Norðaustur-Atlantshafi, að því er fram kemur í frétt frá Hafrannsóknastofnun.

Nú í vikulokin lýkur í Bergen fundi fiskifræðinga frá Færeyjum, Íslandi og Noregi, þar sem farið var sameiginlega yfir niðurstöður leiðangurs þessara þjóða fyrr í sumar. Rannsóknirnar voru um borð í fjórum skipum frá Íslandi, Færeyjum og Noregi á tímabilinu 1. júlí til 10. ágúst 2012, en lítillega var greint frá niðurstöðum íslenska hlutans fyrr í mánuðnum á vef Hafrannsóknastofnunarinnar. Markmið leiðangursins var að kortleggja útbreiðslu og magn makríls og annarra uppsjávarfiskistofna í Norðaustur Atlantshafi meðan á ætisgöngum þeirra um norðurhöf stendur ásamt því að kanna ástand sjávar og átustofna á svæðinu. Rs Árni Friðriksson var í ár að taka þátt í þessum leiðangri í fjórða sinn og þetta árið var í fyrsta sinn sem öll skipin fjögur notuðu samskonar flotvörpu sem sérstaklega hefur verið þróuð fyrir þennan leiðangur.

Magn makríls á svæðinu var metið með upplýsingum um afla í togum sem tekin voru með reglulegu millibili. Í heild mældust um 5,1 milljónir tonna af makríl á rannsóknarsvæðinu, og þar af 1,5 milljón tonn innan íslenskrar efnahagslögsögu eða um 29% af heildarmagninu á rannsóknasvæðin. Í leiðangri sömu þjóða sumarið 2011 var heildarmagnið 2,7 milljónir tonna en 4,8 milljónir tonna árið 2010. Rannsóknarsvæðið í ár náði yfir 1530 þúsund ferkílómetra, samanborið við 1060 árið 2011 og 1750 þúsund ferkílómetra árið 2010. Er breytileg stærð rannsóknasvæðisins að hluta talin skýra muninn á heildarmagninu milli ára.

Sjá nánar á www.hafro.is