Það er fylgifiskur sjókvíaeldis í Noregi að alltaf sleppur eitthvað af eldisfiskinum úr kvíum og syndir sína leið. Slíkt er auðvitað litið alvarlegum augum enda vilja menn stemma stigu við erfðablöndun eldislax og villts lax.
Samkvæmt athugun norska sjávarútvegsráðuneytisins er talið að að minnsta kosti 145.000 eldislaxar og regnbogasilungar hafi sloppið úr kvíum í Hörðalandi á síðasta ári en ljóst er að fjöldinn er vantalinn því vitað er um eldisstöðvar í héraðinu sem misst hafa fisk út án þess að hafa tölu á því.
Af áðurnefndum fjölda fiska hafa 35.600 endurheimst, þar af 24.400 laxar og 11.200 regnbogasilungar. Talið er að fleiri eldisfiskar en þetta hafi veiðst án þess að tilkynnt hafi verið um fundinn eða fiskunum skilað. Stöðvarnar hafa greitt fundarlaun, frá 850-8.500 ISK fyrir hvern fisk.
Norska sjávarútvegsráðuneytið segist einnig hafa grun um að eldisfiskur hafi sloppið í sjó annars staðar við landið en hafi ekki nákvæmar tölur þar að lútandi. Sjávarútvegsráðherrann hefur lýst því yfir að fiskeldisgreinin skuli bera kostnaðinn sem hlýst af því að fanga eldisfisk sem sleppur úr kvíum rétt eins og kostnað frá annarri mengun sem fyrirtækin valdi.