Fyrstu sjö mánuðina 2013 voru fluttar út vörur fyrir 349,6 milljarða króna, að því er fram kemur í frétt frá Hagstofunni. Verðmæti vöruútflutnings var 3,3% minna á gengi hvors árs en á sama tíma árið áður.

Fluttar voru út sjávarafurðir fyrir 152,4 milljarða janúar til júlí 2013 en fyrir 154,6 milljarða á sama tíma í fyrra.

Iðnaðarvörur voru 52,6% alls útflutnings og var útflutningur þeirra 3,9% minni en á sama tíma árið áður. Sjávarafurðir voru 43,6% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 1,4% minna en á sama tíma árið áður. Samdráttur í útflutningi á sjávarafurðum er að hluta til vegna verðlækkana á afurðum.