Aðeins 13 bátar eru nú á grásleppuveiðum á innanverðum Breiðafirði en á sama tíma í fyrra voru þeir 22.  Þetta segir kannski allt sem segja þarf um vertíðina í heild, segir á vef Landssambands smábátaeigenda.

Fjórðungi færri stunduðu grásleppuveiðar í ár en 2015.  Þær gengu á flestum stöðum prýðilega ef frá er skilið NA landið frá Raufarhöfn og suður með Austurlandi.  Á því svæði var hins vegar mokveiði á vertíðinni 2015.

Til marks um góða veiði var afli nú á hvern veiðidag 14% meiri en 2015 sem var þó besta árið í áratug.  Að vanda stunduðu flestir grásleppuveiðar á svæði E sem markast af Skagatá og Fonti á Langanesi.  Á svæði - F - frá Fonti og suður að Hvítingum stunduðu fleiri bátar veiðar en í fyrra. Góð veiði 2015 hefur laðað fleiri að.

Lágt hrognaverð

Lágt verð á grásleppuhrognum hefur dregið úr áhuga manna á grásleppuveiðum, ekki bara hérlendis heldur einnig annars staðar. Veiðar á Nýfundnalandi og Noregi hafa þannig lítt verið stundaðar af þessum sökum undanfarin ár. Það sem haldið hefur íslenskum grásleppusjómönnum enn að veiðum er opnum markaðar fyrir frosna grásleppu til Kína.  Grænlendingar hafa til þessa getað bætt sér upp verðlækkun með góðri veiði.  Þar eru hins vegar blikur á lofti.  Þeir sækja í auknum mæli til þorsk- og grálúðuveiða sem gefa mun betri tekjur en grásleppuveiðar.

Sjá nánar ítarlegt yfirlit yfir ástand og horfur í grásleppuveiðum á vef LS.