Fiskistofa gaf út samtals 139 leyfi til erlendra skipa til veiða í lögsögu Íslands á síðasta ári, samkvæmt starfsskýrslu Fiskistofu fyrir árið 2010.

Leyfin skiptust þannig að leyfi til loðnuveiða voru 85 talsins, línu- og handfæraveiðileyfi 31, leyfi til veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum 12, kolmunnaveiðileyfi 10 og eitt leyfi var veitt til úthafskarfaveiða.

Loðnuveiðileyfin, kolmunnaveiðileyfin og síldveiðileyfin og línu- og handfæraleyfin fóru til norskra og færeyskra skipa í samræmi við gagnkvæma fiskveiðisamninga Íslands annars vegar og Færeyja og Noregs hins vegar. Auk þess hefur eitt grænlenskt skip haft loðnuveiðileyfi hér við land samkvæmt loðnusamningnum. Þá fékk einn grænlenskur togari leyfi til úthafskarfaveiða í íslenskri lögsögu.

Á árinu 2009 voru aðeins gefin út 57 veiðileyfi til erlendra skipa í íslenskri lögsögu og stafaði það fyrst og fremst af því að loðnuveiðar það ár voru bundnar við rannsóknarkvóta sem kom eingöngu í hlut Íslendinga.

Því má bæta við að á árunum 1006-2008 voru 11-12 veiðileyfi gefin út til karfaveiða ESB-skipa á Íslandsmiðum en ríki sambandsins hafa ekki nýtt þessar heimildir síðustu tvö árin.