Fiskaflinn í septembermánuði síðastliðnum nam alls 108.000 tonnum í september samanborið við 106.000 tonn í sama mánuði á síðasta ári.

Botnfiskafli jókst um tæp 4.600 tonn frá september 2011 og nam um 35.300 tonnum. Þar af var þorskaflinn rúm 18.300 tonn, sem er 4.500 tonnum meiri afli en á fyrra ári. Ýsuaflinn nam rúmum 3.200 tonnum sem er rúmlega 500 tonnum minni afli en í september 2011. Karfaaflinn jókst um 123 tonn samanborið við september 2011 og nam rúmum 4.900 tonnum. Tæp 5.000 tonn veiddust af ufsa sem er rúmlega 1.100 tonna aukning frá september 2011. Annar botnfisksafli nam um 3.900 tonnum og dróst saman um 698 tonn frá fyrra ári.

Afli uppsjávartegunda nam tæpum 69.600 tonnum, en 71.200 tonn af uppsjávarafla veiddist í september 2011. Rúmum 54.000 tonnum var landað af síld í septembermánuði, samanborið við 48.400 tonn í september 2011. Um 13.600 tonn veiddust af makríl sem er samdráttur frá fyrra ári um 7.300 tonn.

Nánar á vef Hagstofunnar.