Landaður afli í september 2021 var 107 þúsund tonn sem er 10% minni afli en í september 2020. Botnfiskafli var um 32 þúsund tonn, 11% minna en í fyrra. Af botnfisktegundum var þorskur tæp 20 þúsund tonn. Uppsjávarafli var tæplega 73 þúsund tonn sem er 10% minni afli en í september 2020. Mest var veitt af síld eða tæp 56 þúsund tonn.

Fiskistofa segir frá og birtir nákvæma tölfræði.

Á tólf mánaða tímabilinu frá október 2020 til september 2021 var heildaraflinn tæplega 1.040 þúsund tonn sem er 2% meiri afli en á sama tímabili ári fyrr. Á tímabilinu veiddust tæp 477 þúsund tonn af botnfisktegundum og rúm 531 þúsund tonn af uppsjávarfiski.

Landaður afli í september 2021, metinn á föstu verðlagi, lækkar um 9,2% samanborið við september í fyrra. Magnvísitala hefur einnig verið uppfærð fyrir fyrri mánuði ársins.

Um bráðabirgðatölur er að ræða og byggja á upplýsingum sem berast Fiskistofu frá löndunarhöfnum innanlands, útflytjendum afla og frá umboðsmönnum erlendis.