Börkur NK hélt til síldveiða um hádegisbil á laugardag og kom inn til Neskaupstaðar á mánudagsmorgun með rúmlega 1.000 tonn. Vinnsla hófst þegar í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Þar með er síldarvertíðin hafin hjá Síldarvinnslunni.
Hálfdan Hálfdanarson skipstjóri sagði í samtali við tíðindamann heimasíðu Síldarvinnslunnar að sér litist vel á vertíðina framundan.
„Á meðan á makrílvertíðinni stóð urðum við varir við mikla síld austur af landinu og hún var reyndar einnig inni á fjörðum. Við veiddum síldina í þessum túr á Héraðsflóanum rétt við 12 mílurnar. Miðin eru um 40 mílur frá Neskaupstað þannig að það er rúmlega þriggja tíma sigling á miðin. Við erum sem sagt að veiða síldina í túnfætinum heima. Aflinn fékkst í fjórum stuttum holum. Það var dregið í fjóra til fimm tíma. Aflinn í holunum var frá 180 tonnum og upp í 330 tonn. Þetta gekk sem sagt mjög vel og getur varla verið þægilegra. Síldin lítur ágætlega út. Meðalvigtin er á milli 350 og 360 grömm en um 30% af aflanum er íslensk sumargotssíld, meirihlutinn er hins vegar norsk-íslensk síld. Gera má ráð fyrir að það taki um einn og hálfan sólarhring að landa aflanum og vinna hann,” sagði Hálfdan.
Oddur Einarsson, yfirverkstjóri í fiskiðjuverinu, segir að síldin úr Berki líti afar vel út og í fiskiðjuverinu séu menn kampakátir. Hann segir jafnframt að smærri síldin í aflanum verði flöppsuð en sú stærri heilfryst.