Ísfisktogarinn Viðey RE gerði það gott í fyrstu veiðiferðinni eftir Sjómannadaginn. Skipið var með tæp 100 tonn af fiski eftir aðeins tvo sólarhringa á veiðum.

„Við vorum í grenndinni við Halann á Vestfjarðamiðum. Aflinn var svo til eingöngu þorskur og sáralítið var af öðrum tegundum. Ufsi sást varla og ýsan virðist vera hætt að flækjast fyrir. Því miður náðum við ekki nema tveimur sólarhringum á veiðum að þessu sinni. Það stafar af því að öll skipin voru í höfn á Sjómannadeginum og nú þarf að stemma af landanir og þarfir vinnslunnar,” segir Jóhannes Ellert Eiríksson, skipstjóri á Viðey, í viðtali á heimasíðu Brims.

Að hans sögn virðist ástandið lofa góðu. Aflabrögð voru góð fyrir Sjómannadaginn og hann er ánægður með ástand þorsksins á Vestfjarðamiðum. Meðalvigtin í veiðiferðinni var rúm þrjú kíló.

Undanfarin sumur hafa ísfisktogarar Brims verið að veiðum fyrir norðan land og hefur stórum hluta aflans verið landað á Sauðárkróki. Jóhannes Ellert segist ekki vita hvernig málum verður háttað í sumar en það ráðist af því hvernig fiskurinn hagi sér. Undanfarin sumur hafa t.d. Halamið verið steindauð á meðan góður afli hafi fengist austar.