Útflutningsverðmæti sjávar- og fiskeldisafurða í Noregi náðu nýjum methæðum í janúar og þau tíðindi áttu sér líka stað að 10% heildarútflutningsins eru til Bandaríkjanna. Nú stendur Evrópa frammi fyrir hótunum ríkisstjórnar Donalds Trump að tollar verði lagðir á innflutningsvörur frá Evrópusambandsríkjum en ekki er ljóst hvernig EES löndunum muni farnast í þeim efnum.

Samkvæmt tölum frá Norska sjávarafurðaráðinu, NSC, námu heildarútflutningstekjur sjávar- og fiskeldisafurða í janúar 15,3 milljörðum NOK, tæpum 193 milljörðum ÍSK, sem er 14% aukning miðað við sama mánuð 2024. Tekjuaukann má einkum rekja til meiri útflutnings á laxi og verðhækkunum á villt um fiski eins og makríl. Auk þess er gengi norsku krónunnar gagn vart dollar og evru veikara en það var í janúar á síðasta ári. Bandaríkin voru stærsti útflutningsmarkaður Norðmanna og flutti inn norskar sjávar- og fiskeldisafurðir fyrir 1,5 milljarða NOK í janúar, tæpa 19 milljarða ÍSK. Það voru 9,7% af heildarútflutningstekjum Norðmanna fyrir þessar afurðir í mánuðinum.

Bandaríkin að verða mikilvægasti markaðurinn

„Jafnvel þótt Donald Trump Bandaríkjaforseti hafi oftsinnis rætt aukna tolla á viðskiptalönd landsins tökum við eftir því að janúar er sögulegur mánuður í útflutningi á norskum sjávar- og fiskeldisafurðum til Bandaríkjanna. Fisk- og skelfiskútflutningur til Bandaríkjanna hefur aldrei áður skilað Noregi jafnháum útflutningstekjum eins og í janúar,“ segir Christian Chramer, framkvæmdastjóri NSC.

Samkvæmt NSC jukust tekjur Norðmanna af útflutningi sjávar- og fiskeldisafurða til Bandaríkjanna í janúar um 428 milljónir NOK, tæpa 5,4 milljarða ÍSK, miðað við sama mánuð í fyrra, eða um 41%. Norðmenn njóta góðs af innflutnings banni á sjávarafurðir frá Rússlandi, m.a. í sölu á kóngakrabba.

„Bandaríkin hafa þróast yfir í það í gegnum árin að verða einn mikilvægasti einstaki markaður okkar. Í janúar voru útflutningstekjurnar af laxi einum saman einn milljarður NOK sem er nýtt met. Þetta undirstrikar mikilvægi bestu hugsanlegu samninga um milliríkjaverslun, þar á meðal við Bandaríkin,“ segir Chramer.

Sinn þátt í aukningu útflutningsverðmæta til Bandaríkjanna í janúar er sala á kóngakrabba en verðmætin jukust um 81% miðað við sama mánuð í fyrra og fóru í 105 milljónir NOK. Innflutningsbann hefur verið á öllum rússneskum sjávarafurðum til Bandaríkjanna en stór hluti framboðs kóngakrabba á heimsvísu hefur komið frá Rússlandi. Útflutningur Norðmanna á kóngakrabba féll reyndar um 2% í magni í mánuðinum en verðmætin jukust um 36% og fóru í 130 milljónir NOK. Upp úr standa þó útflutningsverðmæti lax til Bandaríkjanna í janúar sem námu 1,1 milljarði NOK, 13,8 milljörðum ÍSK, sem er 39% aukning í verðmætum frá sama mánuði í fyrra. „Að hluta til má rekja þessa miklu aukningu á útflutningi á laxi og silungi til Bandaríkjanna til þess að gnótt var til af fiski í réttum stærðum og í réttum gæðum fyrir Bandaríkjamarkað í þessum mánuði. Enn frekari veiking norsku krónunnar gagnvart bandaríkjadollar hefur einnig áhrif.