Heildarafli íslenska flotans þegar fiskveiðiárið 2016/2017 var hálfnað, þ.e. frá 1. september 2016 til loka febrúar 2017, nam tæpum 425 þúsund tonnum upp úr sjó. Til samanburðar var aflinn á sama tímabili í fyrra 472 þúsund tonn. Þetta er samdráttur í heildarafla sem nemur um 10%, eða um 48 þúsund tonnum. Meginskýringin á þessu er sjómannaverkfallið sem stóð í um 8 vikur. Þetta kemur fram á vef Fiskistofu .

Á fyrri helmingi yfirstandandi fiskveiðiárs veiddu íslensk skip tæplega 31 þúsund tonni minna af þorski upp úr sjó en á fyrra ári. Samdráttur í ýsuafla var um 7,5 þúsund tonn. Heildaraflinn í botnfiski er á fyrra helmingi fiskveiðiársins tæp 176 þúsund tonn upp úr sjó samanborið við 240 þúsund tonn á sama tímabili í fyrra. Þetta er samdráttur upp á 27%.

Á fyrri helmingi fiskveiðiársins nam uppsjávarafli íslenskra skipa 246 þúsund  tonnum. Það er tæplega 20 tonnum meiri afli en á sama tímabili á síðasta fiskveiðiári. Milli ára varð talsverð aukning í makríl og loðnu en samdráttur í kolmunna.

Afli íslenskra skipa í skel- og krabbadýrum á fyrra helmingi fiskveiðiársins er 1.166 tonnum minni en á fyrra ári sem samsvarar um 29% samdrætti. Meira en helmingssamdráttur varð í humri og rækju en afli í sæbjúgum jókst.