Norsk stjórnvöld ætla að láta smíða nýtt hafrannsóknaskip sem áætlað er að kosta muni um 450 milljónir norskra króna eða jafnvirði rétt tæplega 10 milljarða íslenskra. Skipið fær nafnið Dr. Fridtjof Nansen og leysir af hólmi annað rannsóknaskip með sama nafni sem Norðmenn hafa haldið úti til hafrannsókna úti fyrir ströndum Afríku, Asíu og Suður-Ameríku sem þróunaraðstoð við þjóðir viðkomandi ríkja.
Í vikunni voru undirritaðir samningar við Skipsteknisk AS í Álasundi um hönnun skipsins en sjálf smíðin verður boðin út í haust og gert er ráð fyrir að skipið verði tilbúið árið 2016.
Skipið verður 70 metra langt og 18 metra breitt. Í því verður svefnrými fyrir 45 menn í 32 káetum. Þar verða sjö rannsóknastofur og að sjálfsögðu öll nýjasta tækni. Til samanburðar má nefna að eldra rannsóknaskipið með sama nafni var 57 metra langt og 12,5 metra breitt.