Minnsti báturinn í flota Síldarvinnslusamstæðunnar er krókaaflamarksbáturinn Fjölnir sem gerður er út af Vísi í Grindavík. Fjölnir er 30 tonna bátur, 15 metrar að lengd og smíðaður árið 2007. Báturinn hét áður Sævík en á síðasta ári var nafni hans breytt enda Fjölnisnafnið rótgróið hjá Vísi. Tvær áhafnir eru á Fjölni og skiptast þær á að róa hálfan mánuð í senn. Skipstjórar eru Júlíus Magnús Sigurðsson og Kristinn Arnberg Kristinsson. Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við skipstjórana og fékk hjá þeim ýmsar upplýsingar um útgerð Fjölnis.

Hjá skipstjórunum kom fram að öll áhersla væri lögð á að róa frá Grindavík. Þaðan væri best að róa enda línan lögð við bæjardyrnar. Stundum gerði veðurfar það ókleift að sækja sjóinn frá Grindavík og þá væri ýmist róið frá Sandgerði eða Þorlákshöfn. Sl. haust eða frá því í september og fram í nóvember var Fjölnir gerður út frá Neskaupstað og fiskaðist ágætlega þar eystra. Útgerð bátsins hefur gengið vel og veiddi hann 1.200 tonn á síðasta ári. Skipstjórarnir fullyrða báðir að veiði hafi sífellt verið að aukast á undanförnum árum. Ekkert mál sé að sækja stóran og fallegan þorsk en heldur erfiðara sé að eiga við ýsuna.

Línan dregin á Fjölni GK. Mynd/Júlíus Magnús Sigurðsson
Línan dregin á Fjölni GK. Mynd/Júlíus Magnús Sigurðsson

Hver róður hjá Fjölni tekur á milli 12 og 20 tíma. Það hefur verið róið af krafti það sem af er janúarmánuði. Róðrarnir í mánuðinum eru orðnir 15 og líklega verða þeir vel yfir 20. Hörkuveiði hefur verið í þessum róðrum eða 10 – 12 tonn í róðri.