„Þetta er mjög flott útibú sem er að bætast við og það styrkir reksturinn,“ segir Einar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Fiskmarkaðs Suðurnesja sem nú hefur fengið Fiskmarkað Vestfjarða í Bolungarvík undir sinnn væng.
Með sameiningunni heyra nú sjö staðir undir Fiskmarkað Suðurnesja. Auk Bolungarvíkur eru það Patreksfjörður, Ísafjörður, Siglufjörður, Grindavík, Sandgerði og Höfn.
Engin breyting verður gerð á rekstrinum í Bolungarvík. „Þeir halda bara áfram að gera þá góðu hluti sem þeir hafa verið að gera. Eina breytingin er að fiskmarkaðurinn í Bolungarvík er að smíða nýtt hús sem við byrjum væntanlega að afgreiða í gegn um strax í ágúst eða september,“ segir Einar.
Fiskbúðir og stórútgerðir
Aðspurður segir Einar að nú fari um það bil 35 prósent af þeim fiski sem fer á markað hérlendis um Fiskmarkað Suðurnesja. Þar af séu um 10 prósent í Bolungarvík. Ellefu eða tólf starfsmenn séu í Bolungarvík og um 45 hjá FMS í heild.
„Það er mjög gott að vera komin með Bolungarvík undir FMS- hattinn og við erum mjög bjartsýnir á framhaldið,“ segir Einar.
Að sögn Einars er kaupendur á Fiskmarkaði Suðurnesja um það bil 140 talsins. „Þeir eru alveg frá fiskbúðum upp í stórútgerðir en mest þó fiskvinnslur.
Kaupendahópinn segir Einar nokkuð stöðugan þótt nokkur vöxtur hafi færst í að fiskur sé seldur til útflutnings óunnin.
Mokfiskerí og allir í vandræðum
„Það eru búið að vera mjög gott verð á fiskmörkuðum á þessu ári. Það er mikil eftirspurn en það hefur verið svakaleg kvótaskerðing fyrir allar útgerðir og vantar þar af leiðandi fisk í fiskvinnsluhúsin. Það þarf að sækja hann einhvers staðar,“ segir Einar.
Nóg er þó af þorski í sjónum að sögn Einars. „Strandveiðflotinn er að mokfiska og það eru allir í vandræðum því það er svo mikið af þorski að það er erfitt að veiða ýsu og ufsa því það kemur alltaf þorskur með.
Þess má geta að þegar náðist í Einar á þriðjudag var hann að leggja hönd á plóg vegna sumarfría í Sandgerði og samtalið tafðist örlítið. „Það voru þrír strandveiðibátar að landa og ég var bara að hjálpa til. Það er gott að hreyfa sig.“
