Svandís Svavarsdóttir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra segir að aflaheimildir í ýsu verði ekki auknar að sinni, að því er fram kemur í svari hennar við erindi frá Landssambandi smábátaeigenda (LS).

LS hafði óskað eftir því að ýsuheimildir yrðu auknar um 8.000 tonn, eins og gert var á síðasta ári. Smábátar jafnt sem stærri bátar á þorskveiðum höfðu þá lent í vanda vegna þess hve mikil ýsa veiddist með þorskinum, þannig að takmarkaðar ýsuheimildir dugðu ekki til.

Svandís segir „ástand“ veiðiheimilda í ýsu virðast vera „talsvert betri en á sama tíma sl. ár. Það á bæði við um aflamarks- og krókaaflamarksbáta.“

Enn séu rúm 20.000 tonn eftir af aflaheimildum í ýsu á yfirstandandi fiskveiðiári, eða 56%, en á sama tíma í fyrra voru eftir rúm 18.000 tonn eða rúm 48%.

Ráðherra styðst þarna við svar Hafrannsóknastofnunar við erindi frá LS, þar sem segir að ekki sé hægt að sjá "rök fyrir því að auka nú þegar við aflaheimildir ýsu vegna stöðu aflaheimilda.“

LS furðar sig raunar á þessum orðum Hafrannsóknastofnunar: „Ekki verður séð að stofnunin eigi að hafa skoðun á þessum þætti, heldur að halda sig við það sem lýtur að vísindalegri nálgun á viðfangsefninu“, segir á vef LS.

Hafrannsóknastofnun varar hins vegar við því að veiðiheimildir verið auknar aftur: „Að víkja út af aflareglum ítrekað er í raun að fylgja ekki aflareglu og því leggst stofnunin gegn því að bætt verði við aflaheimildir ýsu á yfirstandandi fiskveiðiári.“

Margar útgerðir hafi á síðasta ári „fram að aukningu aflaheimilda reynt að takmarka sókn í ýsu með góðum árangri“, en þær hafi hætt því snarlega og aukið sóknina eftir að kvótinn var aukinn.

LS segist þó ekki ætla að „láta staðar numið varðandi beiðni um aukningu í ýsu á yfirstandandi fiskveiðiári enda fullt tilefni er til að fylgja málefninu eftir.“