Landsréttur staðfesti í gær skaðabótaskyldu ríkisins gagnvart Vinnslustöðinni og dótturfélaginu Huginn í svokölluðu makrílmáli. Það snerist um úthlutun aflaheimilda á árunum 2011 til 2018.
Í dómi Landsréttar er hins vegar kveðið á um að kröfur vegna áranna 2011 og 2012 væru fyrndar. Af þessum sökum eru bætur til Vinnslustöðvarinnar lækkaðar um 245,7 milljónir króna og verða 269,5 milljónir króna í stað 515,2 millljóna.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Hugins er hins vegar staðfestur af Landsrétti og nema bætur til þess fyrirtækis 467 milljónum.
Samtals nema bæturnar þannig 736,5 milljónum króna sem ofan á reiknast vextir.
„Á þessu stigi er verið að greina forsendur dóms Landsréttar um lækkun bótafjárhæða til Vinnslustöðvarinnar. Að lokinni þeirri greiningu verður ákvörðun um framhald málsins tekin,“ segir í færslu á vef Vinnslustöðvarinnar í kjölfar dóms Landsréttar.