Frystitogarinn Örfirisey RE kom til hafnar í Reykjavík sl. þriðjudag úr sinni fyrstu veiðiferð eftir sjómannadaginn. Arnar Haukur Ævarsson, skipstjóri, segir túrinn hafa verið nokkuð hefðbundinn. Aflabrögð voru góð, vinnslan var keyrð á fullu allan tímann og aflinn upp úr sjó er áætlaður um 1.100 tonn.

Frá er sagt á heimasíðu Brims.

„Við byrjuðum í Skerjadjúpinu og fengum þar góðan gulllax- og djúpkarfaafla. Það hefur verið óvenjulega mikið af djúpkarfa í ár í samanburði við undanfarin ár og við höfum einnig fengið mikið af gulllaxi. Sá fiskur er hausaður og heilfrystur líkt og karfinn en það veiðist jafnan eitthvað af karfa með gulllaxinum. Vinnslan er til þess að gera einföld, þótt hún krefjist vissulega mikils af áhöfninni, og það fóru alveg 70 tonn í gegnum vinnsluna á sólarhring,” segir Arnar en hann segist einnig hafa farið til að leita af ufsa í veiðanlegu magni á Fjöllunum.

„Við fundum engan ufsa og því var ákveðið að fara inn til Reykjavíkur í millilöndun 23. júní áður en haldið yrði norður á Vestfjarðamið.”

Eftir millilöndunina var stefnan sett norður á Látragrunn.