Hafrannsóknastofnun barst fyrirspurn þann 19. ágúst sl. frá skipverja á Guðmundi í Nesi RE 13, varðandi fiskmerki sem fannst í grálúðu á Hampiðjutorginu þá um nóttina.

Merkið reyndist ekki vera frá Hafrannsóknastofnun. Stofninin sendi fyrirspurn á Hafrannsóknastofnunina á Grænlandi um hvort merkið væri frá þeim. Það reyndist ekki vera og því var haft samband við Vemco (Innovasea), sem er framleiðandi merkisins, hvort að hann gæti aðstoðað við að hafa uppi á eiganda þess.

Þann 26. ágúst barst Hafró svar frá fyrirtækinu og búið var að finna út hver eigandi merkisins væri. Nigel Hussey hjá University of Windsor í Kanada (eigandi merkisins) hafði svo samband sama dag og falaðist eftir meiri upplýsingum varðandi fundarstað.

Grálúðan var merkt 18. september 2016 norður af Disko Fan Conservation Area í Kanada (á 68.30933 breiddargráðu og 59.7757 lengdargráðu) en það svæði er lokað fyrir öllum veiðum sem snerta hafsbotninn. Grálúðan var 68 cm við merkingu en ekki fylgdu upplýsingar um stærð þegar hún veiddist.