Tumi Tómasson var lengi skólastjóri Sjávarútvegsskóla Þróunarsamvinnumiðstöðvar UNESCO. Hann ræðir um smábátaveiðar, mikilvægi þeirra víða um heim og þróun undanfarinna áratuga.

Níutíu prósent þeirra sem starfa við fiskveiðar á heimshöfunum stunda veiðar sínar á smábátum. Þessi hópur veiðir um tvo þriðju af þeim fiski sem veiddur er til beinnar neyslu í heiminum.

Þetta kemur fram í viðtali við Tuma Tómasson sem birt er á Youtube-síðu Sjávarútvegsskóla Þróunarmiðstöðvar UNESCO, en nokkur myndbönd hafa verið birt nú síðla vetrar þar sem rætt er við Tuma og fleiri sérfræðinga á sviði sjávarútvegs, hafrannsókna og auðlindastýringar.

Viðtölin eru liður í kynningu skólans á 14. heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna sem lýtur að lífi í vatni og sjó, þar á meðal fiskveiða.

Í viðtalinu við Tuma rekur hann í stórum dráttum ýmsar þær breytingar sem orðið hafa á fiskveiðum í heiminum undanfarna áratugi, bæði hér á landi og annars staðar.

Vöxtur eftir stríð

„Eftir heimsstyrjöldina jókst aflinn mikið. Fiskistofnarnir höfðu í raun verið verndaðir að nokkru leyti vegna stríðsins á höfunum. Það var mikil gnótt af fiski og hraður vöxtur, eða um 7 prósent árlega allt til ársins 1970. Við héldum að við gætum veitt endalaust, auðlindin væri óþrjótandi, en það breyttist allt á áttunda áratugnum þegar afleiðingar þessa takmarkalausa vaxtar komu í ljós og þá fór að hægjast á vextinum, en vöxturinn hélt samt áfram í fiskveiðum allt fram á miðjan níunda áratuginn.“

Eftir það hefur heimsveiðin staðið nokkurn veginn í 90 milljón tonnum.

„Það sem hefur gerst eftir það er að frá miðjum níunda áratugnum þegar um helmingur heimsaflans kom frá þróunarlöndum en í dag og undanfarna einn eða tvo áratugi hefur framlag þróunarlandanna verið um 70 prósent.“

Gerólíkar veiðar

Spurður um smábátaveiðar sérstaklega og hvernig þær eru almennt skilgreindar þá nefnir hann að oft sé talað um að þær séu veiðar sem lítið er fjárfest í, og þá einkum í þróunarlöndunum.

„Við erum einnig með þær á Íslandi og út um heim allan, en það er allt önnur tegund af veiði. Stundum segi ég að 12 metra langur bátur á Íslandi geti veitt kannski þúsund tonn á ári, sem er meira en 300 smábátaveiðimenn í Grenada veiða, svo dæmi sé tekið.“

  • Tumi Tómasson var lengi skólastjóri Sjávarútvegsskóla Þróunarsamvinnustofnunar UNESCO, sem áður hét Sjávarútvegsskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna, en er nú ráðgjafi við skólann. MYND/GB

Tumi nefndi ýmsar forvitnilegar staðreyndir um þessar tvær tegundir veiða og þróun þeirra, svo sem að árið 1980 voru smábátasjómenn um 8 milljónir en þeim fjölgaði mikið og voru orðnir um 35 milljónir árið 2012. Aflinn jókst hins vegar ekki jafn hratt því árið 1980 var hann 20 milljón tonn en 2012 um 40 milljón tonn.

„Þannig að veiðin á hvern mann minnkaði um helming.“

Tumi segir þetta óneitanlega vera merki um að ofveiði eigi sér stað, „en það sem vekur frekar áhyggjur er það sem er að gerast í samfélögunum. Sumir sigra, sumir tapa. Kannski ættum við að rannsaka það og sjá hvernig það kemur heim og saman við hugmynd okkar um að draga úr fátækt. Mögulega erum við að ýta fólki út í fátækt með því að auka fiskveiðarnar.“