Verulega hefur dregið úr eftirspurn vöru og þjónustu íslensku tæknifyrirtækjanna á þessu ári. Þetta eru mikil umskipti því tæknifyrirtækjum sem þjónusta sjávarútveginn hefur gengið sérlega vel á undanförnum árum. Fjárfestingavilji sjávarútvegsfyrirtækja hefur minnkað og rekja menn þetta einkum til efnahagsástandsins, óvissu í stjórnmálum og ekki síst minni uppsjávarveiði með algjöru loðnuleysi. Sum fyrirtækjanna í þessari grein hafa brugðist við með fækkun starfsmanna.
Matvælaráðuneytið hefur lagt fram drög að lagafrumvarpi þar sem lagt er til að veiðigjald á uppsjávartegundir hækki úr 33% í 45% og að veiðigjöldin verði ekki frádráttarbær frá tekjuskatti. SFS hefur sagt að aukin skattheimta leiði til minni fjárfestingargetu innan sjávarútvegsins og það dragi úr verðmætasköpun. Árið 2022 námu fjárfestingar sjávarútvegsfyrirtækja rúmlega 30 milljörðum kr. Ekki liggja fyrir tölur fyrir árið 2023 en ljóst er að dregið hefur úr fjárfestingum og enn frekar á yfirstandandi ári. Það er þessi óvissa með gjaldtöku sem fyrirtæki í sjávarútvegi standa frammi fyrir um þessar mundir ásamt háu vaxtastigi, loðnubresti og lakri makrílvertíð. Allt dregur þetta enn frekar úr fjárfestingavilja sjávarútvegsfyrirtækjanna með tilheyrandi áhrifum á tæknifyrirtæki sem hafa byggst upp í kringum sjávarútveginn. Það á jafnt við um fyrirtæki í vinnslu- og kælibúnaði og skipahönnun.
KAPP í Kópavogi sérhæfir sig í hönnun og framleiðslu á kælibúnaði og þjónustu á tækjabúnaði fyrir sjávarútveg, fiskeldi og annan iðnað. Freyr Friðriksson, framkvæmdastjóri KAPP, segir markaðinn ekki alveg frosinn en töluvert erfiðara sé að sækja stærri verkefnin en áður.
Viðsnúningur erlendis
„Á móti kemur ákveðinn bati erlendis sem við verðum varir við. Þar er markaðurinn aðeins að glæðast, í Bandaríkjunum og Austur-Evrópu. Mín sýn er sú að þjónustuþátturinn er mikilvægur. Þegar þjónustan er í lagi er hægt að halda dampi. En ef við hefðum ekki þessi erlendu verkefni núna væri maður ekkert sérstaklega brattur,“ segir Freyr.
Hjá KAPP er þjónusta við tæknibúnað yfir 60% af veltu fyrirtækisins. Freyr minnist á hátt vaxtaumhverfi og að fyrirtæki vilji síður steypa sér í skuldir við þær aðstæður. Þá vanti loðnu inn í hagkerfið á þessu ári og þar muni tugum milljarða króna. Stjórnmálaástandið sé síður en svo traustvekjandi og alvarlegar blikur eru á lofti í utanríkismálum. Hann segir að góður árangur undanfarinna ára hjá tæknifyrirtækjum haldi þeim mörgum á floti núna. Nokkur verkefni með aðilum erlendis hafi verið komin af stað sem veiti súrefni inn í starfsemina.
„En núna horfum við tiltölulega skammt fram á veginn. Fyrir einu til tveimur árum síðan vorum við með þétta verkefnastöðu út allt næsta ár en það er ekki þannig lengur.“
Gunnar Óli Sölvason, framkvæmdastjóri Micro, tekur enn dýpra í árinni og segir stöðnun á þessum markaði. Síðasta stóra verkefnið sem Micro skilaði af sér var framleiðsla og uppsetning á flokkunar- og pökkunarlínu fyrir eitt fullkomnasta laxasláturhús í heimi, Drimlu sem er í eigu Arctic Fish í Bolungarvík. Hann segir að allt frá því í nóvember-desember á síðasta ári hafi verið fremur hljótt á þessu markaði.
„Fyrstu sex mánuðina á þessu ári var rólegra yfir þessu en nokkru sinni áður frá því ég hóf störf hérna fyrir sjö árum. Það tók óratíma að taka ákvarðanir um þær fáu fyrirspurnir sem þó bárust. Það var hægagangur í öllu. En allt í einu núna eftir sumarfrí eru farin að berast til okkar minni verkefni en líka fyrirspurnir í stærri verk. Okkur finnst eins og það sé að losna um stífluna hjá mörgum en ennþá er samt ekkert þessara stóru verkefna í höfn. Þetta lítur alla vega aðeins betur út en á fyrri hluta ársins,“ segir Gunnar Óli.
Allir í veseni
Menn hafi leitað skýringa á þessu ástandi. Að hans mati hafi lokun Rússlandsmarkaðar beint þeim fyrirtækjum sem þar voru inn á sömu markaði og Micro hefur verið að berjast á, þ.e. Norðurlöndin, Færeyjar og Skotland. Vaxtaumhverfið og boðaðar breytingar á fiskveiðistjórnunarlögunum, sem komu inn í samráðsgátt í september á síðasta ári, hafi dregið kjarkinn úr mörgum. Á sama tíma hafi norski laxeldisiðnaðurinn þurft að taka á sig mun meiri skattheimtu.
„Við höfum séð Skagann fara í gjaldþrot, vandræði hjá Optimar og Carsö sem voru stórir í vinnslukerfum í Rússlandi þurftu að selja hluta af starfseminni til að halda sér á floti. Þá er Marel með 500 milljóna kr. tap á ársfjórðungi. Það eru allir í veseni og að brenna peningum.“
Sumir hafa þurft að fækka í starfsmannahópnum, þar á meðal Micro sem þurfti að grípa til uppsagna og segir Gunnar Óli ekki seinna vænna að birti eitthvað yfir markaðnum svo ekki þurfi að grípa til róttækari aðgerða. Hann segir að það bjóði hættunni heim að þekking tapist fyrir fullt og allt verði fyrirtæki fyrir þannig skakkaföllum að þau neyðist til að hætta starfsemi. „Ég hef verið spurður að því af erlendum aðilum hvernig við förum að því að halda úti fyrirtækjum með svona sérhæfða þekkingu í svo fámennu landi því við erum í stökustu vandræðum með að fá til okkar reynslumikið fólk. Skýringin er sú að hér voru stór fyrirtæki sem þjálfuðu starfsmenn sem síðar fluttu sig um set. En nú er Skaginn farinn og enginn veit hvað JBT hyggst gera með fiskhlutann af Marel. Við erum að missa þá stöðu að vera útungunarstöð á fólki með sérþekkingu á matvælaiðnaði og þá sérstaklega fiski.“
Beðið með ákvarðanatöku
Skipahönnunarfyrirtæki hafa ekki heldur farið varhluta af breyttum aðstæðum. Hrafnkell Tulinius, framkvæmdastjóri Nautic ehf., segir að þó nokkur verkefni hafi verið í undirbúningi fyrir innlenda aðila sem hafa tekið ákvörðun um að bíða með ákvarðanatöku vegna ytri aðstæðna og óvissu. Hann segir þetta bagalegt fyrir fyrirtæki því skipaflotinn eldist og þörf er fyrir endurnýjun með hagkvæmni að leiðarljósi, bæði varðandi rekstur og umhverfisfótspor. Hönnun og nýsmíði á skipi taki gjarnan 2-3 ár og tregða til að halda áfram með verkefni geti bent til þess að útgerðarmenn séu ekkert sérstaklega bjartsýnir á framtíðina eða fjárfestingaumhverfið.
„Það er síendurtekinn niðurskurður í aflaheimildum í Barentshafi og Noregi sem hugsanlega leiðir til aukinnar sölu í notuðum skipum á sama tíma og samdráttur er í veiðum og minni fyrirsjáanleiki í rekstrarskilyrðum fyrirtækja hérlendis. Tillögur matvælaráðherra um álögur á greinina draga enn frekar úr vilja fyrirtækja til endurnýjunar og fjárfestinga. Það er brestur í veiðum á uppsjávartegundum og sem leiðir óhjákvæmilega til forgangsröðunar verkefna. Fyrirtæki vilja síður stofna til nýrra skuldbindinga við þessar aðstæður og í efnahagsumhverfi eins og nú er,“ segir Hrafnkell.
Verulega hefur dregið úr eftirspurn vöru og þjónustu íslensku tæknifyrirtækjanna á þessu ári. Þetta eru mikil umskipti því tæknifyrirtækjum sem þjónusta sjávarútveginn hefur gengið sérlega vel á undanförnum árum. Fjárfestingavilji sjávarútvegsfyrirtækja hefur minnkað og rekja menn þetta einkum til efnahagsástandsins, óvissu í stjórnmálum og ekki síst minni uppsjávarveiði með algjöru loðnuleysi. Sum fyrirtækjanna í þessari grein hafa brugðist við með fækkun starfsmanna.
Matvælaráðuneytið hefur lagt fram drög að lagafrumvarpi þar sem lagt er til að veiðigjald á uppsjávartegundir hækki úr 33% í 45% og að veiðigjöldin verði ekki frádráttarbær frá tekjuskatti. SFS hefur sagt að aukin skattheimta leiði til minni fjárfestingargetu innan sjávarútvegsins og það dragi úr verðmætasköpun. Árið 2022 námu fjárfestingar sjávarútvegsfyrirtækja rúmlega 30 milljörðum kr. Ekki liggja fyrir tölur fyrir árið 2023 en ljóst er að dregið hefur úr fjárfestingum og enn frekar á yfirstandandi ári. Það er þessi óvissa með gjaldtöku sem fyrirtæki í sjávarútvegi standa frammi fyrir um þessar mundir ásamt háu vaxtastigi, loðnubresti og lakri makrílvertíð. Allt dregur þetta enn frekar úr fjárfestingavilja sjávarútvegsfyrirtækjanna með tilheyrandi áhrifum á tæknifyrirtæki sem hafa byggst upp í kringum sjávarútveginn. Það á jafnt við um fyrirtæki í vinnslu- og kælibúnaði og skipahönnun.
KAPP í Kópavogi sérhæfir sig í hönnun og framleiðslu á kælibúnaði og þjónustu á tækjabúnaði fyrir sjávarútveg, fiskeldi og annan iðnað. Freyr Friðriksson, framkvæmdastjóri KAPP, segir markaðinn ekki alveg frosinn en töluvert erfiðara sé að sækja stærri verkefnin en áður.
Viðsnúningur erlendis
„Á móti kemur ákveðinn bati erlendis sem við verðum varir við. Þar er markaðurinn aðeins að glæðast, í Bandaríkjunum og Austur-Evrópu. Mín sýn er sú að þjónustuþátturinn er mikilvægur. Þegar þjónustan er í lagi er hægt að halda dampi. En ef við hefðum ekki þessi erlendu verkefni núna væri maður ekkert sérstaklega brattur,“ segir Freyr.
Hjá KAPP er þjónusta við tæknibúnað yfir 60% af veltu fyrirtækisins. Freyr minnist á hátt vaxtaumhverfi og að fyrirtæki vilji síður steypa sér í skuldir við þær aðstæður. Þá vanti loðnu inn í hagkerfið á þessu ári og þar muni tugum milljarða króna. Stjórnmálaástandið sé síður en svo traustvekjandi og alvarlegar blikur eru á lofti í utanríkismálum. Hann segir að góður árangur undanfarinna ára hjá tæknifyrirtækjum haldi þeim mörgum á floti núna. Nokkur verkefni með aðilum erlendis hafi verið komin af stað sem veiti súrefni inn í starfsemina.
„En núna horfum við tiltölulega skammt fram á veginn. Fyrir einu til tveimur árum síðan vorum við með þétta verkefnastöðu út allt næsta ár en það er ekki þannig lengur.“
Gunnar Óli Sölvason, framkvæmdastjóri Micro, tekur enn dýpra í árinni og segir stöðnun á þessum markaði. Síðasta stóra verkefnið sem Micro skilaði af sér var framleiðsla og uppsetning á flokkunar- og pökkunarlínu fyrir eitt fullkomnasta laxasláturhús í heimi, Drimlu sem er í eigu Arctic Fish í Bolungarvík. Hann segir að allt frá því í nóvember-desember á síðasta ári hafi verið fremur hljótt á þessu markaði.
„Fyrstu sex mánuðina á þessu ári var rólegra yfir þessu en nokkru sinni áður frá því ég hóf störf hérna fyrir sjö árum. Það tók óratíma að taka ákvarðanir um þær fáu fyrirspurnir sem þó bárust. Það var hægagangur í öllu. En allt í einu núna eftir sumarfrí eru farin að berast til okkar minni verkefni en líka fyrirspurnir í stærri verk. Okkur finnst eins og það sé að losna um stífluna hjá mörgum en ennþá er samt ekkert þessara stóru verkefna í höfn. Þetta lítur alla vega aðeins betur út en á fyrri hluta ársins,“ segir Gunnar Óli.
Allir í veseni
Menn hafi leitað skýringa á þessu ástandi. Að hans mati hafi lokun Rússlandsmarkaðar beint þeim fyrirtækjum sem þar voru inn á sömu markaði og Micro hefur verið að berjast á, þ.e. Norðurlöndin, Færeyjar og Skotland. Vaxtaumhverfið og boðaðar breytingar á fiskveiðistjórnunarlögunum, sem komu inn í samráðsgátt í september á síðasta ári, hafi dregið kjarkinn úr mörgum. Á sama tíma hafi norski laxeldisiðnaðurinn þurft að taka á sig mun meiri skattheimtu.
„Við höfum séð Skagann fara í gjaldþrot, vandræði hjá Optimar og Carsö sem voru stórir í vinnslukerfum í Rússlandi þurftu að selja hluta af starfseminni til að halda sér á floti. Þá er Marel með 500 milljóna kr. tap á ársfjórðungi. Það eru allir í veseni og að brenna peningum.“
Sumir hafa þurft að fækka í starfsmannahópnum, þar á meðal Micro sem þurfti að grípa til uppsagna og segir Gunnar Óli ekki seinna vænna að birti eitthvað yfir markaðnum svo ekki þurfi að grípa til róttækari aðgerða. Hann segir að það bjóði hættunni heim að þekking tapist fyrir fullt og allt verði fyrirtæki fyrir þannig skakkaföllum að þau neyðist til að hætta starfsemi. „Ég hef verið spurður að því af erlendum aðilum hvernig við förum að því að halda úti fyrirtækjum með svona sérhæfða þekkingu í svo fámennu landi því við erum í stökustu vandræðum með að fá til okkar reynslumikið fólk. Skýringin er sú að hér voru stór fyrirtæki sem þjálfuðu starfsmenn sem síðar fluttu sig um set. En nú er Skaginn farinn og enginn veit hvað JBT hyggst gera með fiskhlutann af Marel. Við erum að missa þá stöðu að vera útungunarstöð á fólki með sérþekkingu á matvælaiðnaði og þá sérstaklega fiski.“
Beðið með ákvarðanatöku
Skipahönnunarfyrirtæki hafa ekki heldur farið varhluta af breyttum aðstæðum. Hrafnkell Tulinius, framkvæmdastjóri Nautic ehf., segir að þó nokkur verkefni hafi verið í undirbúningi fyrir innlenda aðila sem hafa tekið ákvörðun um að bíða með ákvarðanatöku vegna ytri aðstæðna og óvissu. Hann segir þetta bagalegt fyrir fyrirtæki því skipaflotinn eldist og þörf er fyrir endurnýjun með hagkvæmni að leiðarljósi, bæði varðandi rekstur og umhverfisfótspor. Hönnun og nýsmíði á skipi taki gjarnan 2-3 ár og tregða til að halda áfram með verkefni geti bent til þess að útgerðarmenn séu ekkert sérstaklega bjartsýnir á framtíðina eða fjárfestingaumhverfið.
„Það er síendurtekinn niðurskurður í aflaheimildum í Barentshafi og Noregi sem hugsanlega leiðir til aukinnar sölu í notuðum skipum á sama tíma og samdráttur er í veiðum og minni fyrirsjáanleiki í rekstrarskilyrðum fyrirtækja hérlendis. Tillögur matvælaráðherra um álögur á greinina draga enn frekar úr vilja fyrirtækja til endurnýjunar og fjárfestinga. Það er brestur í veiðum á uppsjávartegundum og sem leiðir óhjákvæmilega til forgangsröðunar verkefna. Fyrirtæki vilja síður stofna til nýrra skuldbindinga við þessar aðstæður og í efnahagsumhverfi eins og nú er,“ segir Hrafnkell.