„Við erum hérna út af Grindavík. Það var fínt í gær, ein tólf tonn, og stefnir líklega í tíu tonn í dag þótt ég sé nú ekki búinn að draga mikið,“ sagði Óðinn Arnberg Kristinsson, skipstjóri á Óla á Stað. Veðrið hafi verið sæmilegt og vindur með minna móti því oft þegar spáð er 8-15 metrum á sekúndu sé hann í 15 metrum en núna hafi hann verið í kringum 8 metra. Óðinn segir vertíðina, sem samkvæmt öllu á að vera lokið í dag, eina þá albestu sem hann muni eftir. Gallinn á gjöf Njarðar sé sá að kvótinn sé í engu samræmi við fiskgengd.

Óðinn segir dagsetninguna 11. maí fyrir vertíðarlok býsna nákvæma. Eftir þennan stóra straum núna minnki veiðin. Fiskurinn sé farinn að leita út á dýpri mið og menn elti hann þangað.

„Þetta er fiskur sem er búinn að hrygna sem við erum að veiða en það eru enn þá að koma svil úr honum og betra að fá þetta ekki framan í sig,“ segir Óðinn og hlær. Hann segir fiskinn frekar rýran og magran en engu að síður fínasta hráefni. Þetta sé fallegur fiskur þótt hann sé ekki útþaninn af hrognum og loðnu.

Þorskur úr Grænlandshafi

„Þetta er búið að vera algjört mok á þessari vertíð. Veiðin hefur aldrei verið eins mikil en það hefur bara enginn fengið að sýna hvers konar fiskgengd er því það hefur enginn haft kvóta til þess. Oft höfum við ekki fengið að leggja fulla lögn og neyðst til að leggja hálfa lögn. Það er ekki hægt að vaða í þetta þegar ekki er til kvóti fyrir því,“ segir Óðinn.

Óðinn Arnberg Kristinsson, skipstjóri á Óla á Stað GK.
Óðinn Arnberg Kristinsson, skipstjóri á Óla á Stað GK.

Hann bendir á að vestanáttir hafi verið ríkjandi um langt skeið og telur að mun meira af þorski hafi komið hingað upp úr dýpinu við Grænland heldur en hefur verið undanfarin ár. Það sé einfaldlega miklu meira af fiski í þessu tíðarfari heldur en þegar austanáttir eru ríkjandi.

Óðinn segir menn líka ánægða með fiskverð en óneitanlega vildu þeir geta veitt meira enda augljóst af öllu að það er af mjög miklu að taka.