Veiðidögum á grásleppu fækkar úr 62 frá því í fyrra í 50 á vertíðinni sem hefst innan tíðar. Þetta var gert með breytingu á reglugerð um veiðarnar sem sjávarútvegsráðherra gaf út í dag.

Þessi ákvörðun er í samræmi við óskir grásleppuveiðimanna en nauðsynlegt er talið að takamarka veiðarnar til að koma í veg fyrir offramboð af grásleppuhrognum í heiminum.

Ýmsar aðrar breytingar voru einnig gerðar á reglum um veiðarnar. Nú verður óheimilt að hefja veiðar með yfirtöku hrognkelsaneta í sjó. Þetta hefur m.a. áhrif þar sem sami aðili er með fleiri en einn bát við hrognkelsaveiðar en samkvæmt breytingunni verður skylt að taka net úr sjó þegar leyfi rennur út og ganga frá merkingu neta í landi.

Veiðitímabilið hefst á flestum svæðum 10. mars næstkomandi nema við Suðurland þar sem veiðarnar mega byrja 1. mars og úti fyrir Austurlandi en það svæði verður nú opnað 15. mars í stað 10. mars áður.