Beitir NK og Börkur NK komu með síldarfarma til Neskaupstaðar á þriðjudag. Beitir var að veiðum vestur af landinu en Börkur austur af landinu. Rætt er við skipstjórana á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

„Staðreyndin er sú að það var heldur lítið að sjá og veðrið var ekki hagstætt. Við fengum tvær smábrælur og þurftum að halda sjó í heila nótt en við vorum í þrjá sólarhringa á miðunum. Við vorum mest að veiðum utarlega í Kolluálnum og tókum þar fimm hol. Það var heldur lengi dregið eða í um tíu tíma. Aflinn var um 700 tonn og það er um ágætis síld að ræða. Þetta er yfirleitt um 300 gramma síld sem hentar vel til vinnslu,” segir Tómas Kárason skipstjóri á Beiti.

Tómas Kárason skipstjóri. FF MYND/ÞORGEIR
Tómas Kárason skipstjóri. FF MYND/ÞORGEIR

Hjörvar Hjálmarsson, skipstjóri á Berki, segir að vel hafi gengð að veiða fyrir austan.

„Við hófum veiðar í Norðfjarðardýpinu og tókum þar þrjú hol. Fjórða holið var síðan tekið Utanfótar. Það var stutt dregið og það fór einungis einn og hálfur sólarhringur í veiðiferðina. Aflinn er 840 tonn og skiptist hann nánast til helminga, rúmlega helmingur aflans er norsk-íslensk síld og tæplega helmingur íslensk sumargotssíld. Þetta er fínasta síld en íslenska síldin er heldur smærri en sú norsk-íslenska.” segir Hjörvar.

Hjörvar Hjálmarson
Hjörvar Hjálmarson

Lokið var við að vinna afla Beitis í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í gær og hófst þá þegar vinnsla á afla Barkar. Oddur Einarsson, yfirverkstjóri í fiskiðjuverinu, segir að afli skipanna henti mjög vel til vinnslu. „Þetta er fínasta hráefni og það gengur vel að vinna það. Framleidd eru bæði flök og samflök og eins er hluti síldarinnar heilfrystur,” segir Oddur.