Vandræðaástand hefur skapast í dragnótaveiðum hér við land meðal annars vegna mikils niðurskurðar á sandkolakvóta. Nær ómögulegt er að sækja í flatfisk án þess að sandkoli sé í aflanum og óheimilt er að sleppa lífvænlegum sandkola í sjóinn eins og þó er heimilt að gera til dæmis með lúðu.

Dragnótamenn vilja að ríkisvaldið grípi til mótvægisaðgerða sem felast í einu eða öllu af þrennu; að auka aflaheimildir, leyfa sleppingar á lífvænlegum sandkola eins og heimilt er að gera með lúðu, eða rýmka heimildir til löndunar í VS-sjóð. Samtök dragnótamanna hafa sent sjávarútvegsráðherra bréf þar sem bent er á að bregðast verði við þessu ástandi.

„Gögn frá Hafró sýna að það er meira af sandkola heldur en þau gögn sem stuðst er við ráðgjöfina. Þessi 300 tonna úthlutun er nánast tekin upp úr hattinum því gögnin sem styðja þá úthlutun eru svo veik,“ segir Friðrik Halldórsson, talsmaður Samtaka dragnótamanna.

Olnbogabörn í íslenskum sjávarútvegi

Friðrik segir þá sem stunda þennan veiðiskap hálfgerð olnbogabörn í íslenskum sjávarútvegi. Í lok síðustu aldar hafi dragnótarbátar verið nær 150 talsins og flestir á svæðinu frá Hornafirði að norðanverðum Vestfjörðum. Nú eru þeir færri en 40.

Hann segir ástæðuna fyrir þessari miklu fækkun margháttaða. Ein er sú að stöðugt hafi aflaheimildir til þessa flokks verið skertar og þær færðar yfir í potta hingað og þangað. Önnur er mikill niðurskurður í tegundum eins og sandkola sem aðallega er veiddur í dragnót. Kvótinn fór úr 7.000 tonnum í lok síðustu aldar og nú kominn niður í 300 tonn.

„Það kastar enginn orðið með suðurströndinni því þar er allt fullt af sandkola. Suðurnesjabátar veiddu til að mynda allt sumarið með allri suðurströndinni. Það er ekki nokkur leið fyrir þá að gera það í dag. Það er enginn í beinum sandkolaveiðum og það er búið að veiða yfir 98% af heimildum á fyrstu þremur mánuðum fiskveiðiársins en þó er sandkoli einungis meðafli. Það sýnir vel stöðu mála,“ segir Friðrik.

Friðrik Halldórsson, talsmaður Samtaka dragnótamanna. FF MYND/HAG
Friðrik Halldórsson, talsmaður Samtaka dragnótamanna. FF MYND/HAG

Hann segir stjórnmálamenn hafa notað dragnótarmenn til þess að sparka í og skora mörk hjá smábátasjómönnum. Þetta hafi verið allt frá litlum selbitum og upp í dugleg pungspörk eins og dragnótarmenn upplifðu árið 2010 þegar flóum og fjörðum með Norðurlandinu var lokað fyrir dragnót.

Þar hafi ráðið vilji smábátasjómanna, sveitarstjórnarmanna og bænda. Friðrik minnir á að dragnótin sé grunnveiðarfæri og hafi verið hönnuð upphaflega til þess að vera dregin saman á hestum. Á dýpra vatni skilar hún lítilli veiði. Svo bann við dragnótarveiðum á grunnslóð er í raun bann við dragnótaveiðum.

Mun sterkari staða sandkola

Á árum áður var haldið árlegt kolarall í Faxaflóa sem hafði lítinn tilkostnað í för með sér fyrir Hafrannsóknastofnun vegna þess að félagar í Samtökum dragnótamanna lögðu til báta og áhafnir. Þetta var slegið af fyrir u.þ.b. fimmtán árum í sparnaðarskyni. Mörg ár á eftir voru engar beinar rannsóknir á flatfiski.

„Góðu heilli fór Hafrannsóknastofnun af stað með rannsóknir með bómutroll til þess að rannsaka svæði á grunnslóð. Mér skilst að út úr þessari rannsókn hafi komið í ljós sterkari staða sandkola en vegna reglna í vísindaheiminum má ekki nota niðurstöðurnar fyrr en gerðar hafi verið sambærilegar rannsóknir á sama stað í ákveðinn fjölda ára. Mergurinn málsins er sá að mun meiri sandkoli virðist vera á þessum svæðum en samkvæmt þeim gögnum sem stuðst er við núna sem eru aðallega afladagbækur og togararall sem er meira hugsaðar fyrir bolfiskrannsóknir þótt vissulega gefi það vísbendingar. Gallinn við afladagbækurnar er sá að eðli málsins samkvæmt ratar ekki inn í þær fiskur sem ekki má veiða nema í svo takmörkuðu magni.“

Togað í námunda við Eldey á Arnþóri GK fyrir nokkrum árum. FF MYND/HAG
Togað í námunda við Eldey á Arnþóri GK fyrir nokkrum árum. FF MYND/HAG
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Friðrik segir að á meðan gögn Hafró endurspegli ekki ástand sandkolastofnsins betur en raun ber vitni þurfi stjórnvaldið að leysa málið með einhverjum hætti. Sandkoli hafi verið verðlítill fiskur á árum áður og þurftu þeir sem lönduðu honum hjá Fiskmörkuðum að bera kostnað af urðun hans. Nú hafi staðan breyst hvað þetta varðar og allt að 167 kr. fást nú fyrir kílóið af sandkola.