Enn á ný er kominn Sjómannadagur. Sjómenn um land allt fagna og skemmta sér og sínum.

Það sem upp úr stendur er sú staðreynd að enginn sjómaður hefur farist við störf sín fimm ár í röð frá árinu 2017. Öryggisvitund og öryggismenning til sjós kemur þar mjög við sögu. Með tilkomu Slysavarnaskóla sjómanna 1985, hefur grettistaki verið lyft í öryggismálum sjómanna. Þegar stefnan var sett á 0 dauðaslys til sjós voru nokkrar efasemdarraddir sem sögðu að það væri ekki hægt. Hilmar Snorrason skólastjóri Slysavarnaskólans blés á þessar raddir ásamt sjómannaforustunni. Það á að vera regla, ekki undantekning að sjómenn komi heilir heim af sjónum. Nú er sannað að þetta er hægt. Höldum áfram á sömu braut og útrýmum slysum til sjós. Það gengur hægt og bítandi. Betur má ef duga skal.

Öryggishandbók

Nú eru mörg útgerðarfyrirtæki að taka í notkun öryggisstjórnunarkerfi sem byggir á að fræða sjómenn um öryggismál, hvetja til æfinga, skrá öll slys og næstum því slys. Öryggistrúnaðarmenn eru á mörgum skipum og öryggisstjórar hjá útgerðum. Markmiðið með öryggishandbókinni er að allir vinni saman að einu markmiði, að allir komi heilir heim. Með æfingunni verður þetta hluti af daglegri rútínu, öryggisvitundin og menningin verður greipt í huga sjómanna. Ég skora á þá að taka þessu fagnandi og nýta sér þá fræðslu sem er í boði á hverjum tíma. Rannsóknarnefnd samgönguslysa er t.d. komin með nýtt skráningarkerfi slysa, Atvik. Þar geta sjómenn og útgerðir skráð slys og næstum því slys á netinu. Ég hvet sjómenn til að kynna sér Atvik og virkni þess.

Björgunarför

Því ber að fagna og hrósa sem vel er gert. Tekist hafa samningar um að endurnýja allan björgunarskipakost Landsbjargar. Þarft verk og löngu tímabært.

Þyrlumálin eru til háborinnar skammar. Hér eru þrjár þyrlur. Samt kemur fyrir að engin þyrla er til taks eða áhöfn ekki til staðar. Þetta er eins og stríðsástand. Er búið að skjóta niður tvær eða þrjár þyrlur? Hvað er í gangi ágætu stjórnmálamenn? Ef slys verða til sjós utan 20 sjómílna frá landi og ein þyrla er til taks fer hún ekki lengra. Tæpt hefur staðið með líf og limi sjómanna og annara þegna landsins vegna ástandsins. Starfsfólk LHG og læknavaktin hafa lýst þungum áhyggjum. Ekki nóg með það. Nú berast fréttir af færri úthaldsdögum skipakosts LHG. Það er ekki nóg að kaupa flottan búnað sem svo má ekki nýta til góðra verka. Þyrlurnar á jörðu niðri og skipin í höfn - engum til gagns.

Stjórnvöld þurfa að girða sig í brók og veita nægu fé til LHG. Þetta ástand er algerlega óþolandi. Þjóðin treystir á sjávarútveginn sem okkar helstu tekjuöflunarstoð fyrir þjóðarbúið. Þegar kemur að mannslífum og heilsu sjómannanna okkar er kíkirinn settur fyrir blinda augað. Hagræða meira piltar og konur eru einkunnarorð þeirra sem um véla.

Kjaramálin

Samningar sjómanna hafa verið lausir frá desember 2019. Lítið hefur þokast í samkomulagsátt þegar þetta er skrifað þrátt fyrir marga fundi. Tilboð kom frá útgerðinni í vor þar sem settar voru fram nýjar kröfur þannig að sjómenn myndu sjálfir greiða fyrir þær kjarabætur sem farið er fram á. Alltaf er slegið úr og í og ekkert gengur. Sjómenn hafa sammælst um 3,5% í tilgreinda séreign í lífeyrissjóði komi til sjómanna sem og annara launþega. Ef einhver atvinnugrein hefur efni á þessu er það útgerðin. Afkomutölurnar ljúga ekki. Aðrar kröfur okkar eru hófsamar og kosta útgerðina lítið sem ekkert. Minni á að útgerðin hefur fengið afslátt af tryggingagjaldi eins og aðrir atvinnurekendur. Einnig hefur kauptrygging ekki hækkað síðan 1. maí 2019. Það telur í kassann hjá þeim og fleira væri hægt að týna til.

Það virðist stefna í átök með haustinu ef ekki fer að ganga saman.

Kæru sjómenn, fjölskyldur og landsmenn allir, gleðilega Sjómannadagshátíð. Gangið hægt um gleðinnar dyr. Komum öll heil heim.

Höfundur er formaður Sjómannasambands Íslands