Mjög jákvæðar fréttir berast af loðnumiðunum fyrir norðaustan land hvar veiðar hafa gengið prýðilega síðustu sólarhringana.

Heimasíða Síldarvinnslunnar segir frá og ræddi við skipstjórana á Berki NK og Beiti NK síðdegis í gær og spurði frétta af loðnumiðunum.

Hjörvar Hjálmarsson, skipstjóri á Berki, segir þar allt gott að frétta.

„Við erum að veiðum um 50 mílur norðaustur af Langanesi og hér eru íslensku skipin og einnig grænlensku skipin Polar Amaroq og Polar Ammasak. Við vorum að enda við að dæla 590 tonnum og hér er fínasta veiði. Hér er komin alvöru gusa og töluvert mikið að sjá. Við erum komnir með 2.840 tonn um borð og vonandi þurfum við bara eitt hol í viðbót til að fylla. Hér er bjart yfir mönnum,” segir Hjörvar.

Tómas Kárason, skipstjóri á Beiti, tekur undir með Hjörvari og segir að veiðin sé góð.

„Við komum á miðin í nótt [aðfaranótt fimmtudags] eftir að hafa landað 2.500 tonnum í Neskaupstað. Við erum búnir að taka tvö hol, eitt þriggja tíma og eitt átta tíma, og komnir með 600 tonn. Loðnan sem fæst er falleg og stærri en við höfum verið að fá að undanförnu. Mér líst þrusuvel á framhaldið; það er verið að veiða loðnu út um allt hérna, það er ekki verið að veiða úr einni göngu,” segir Tómas.