Þrátt fyrir að Rússar séu beittir refsiaðgerðum á alþjóðavísu jókst útflutningur á rússneskum sjávarafurðum fyrstu sjö mánuði ársins miðað við sama tíma í fyrra, bæði hvað varðar magn og verðmæti.

Samkvæmt tölum frá rússnesku hagstofunni jókst útflutningur á sjávarafurðum um 24,2% í magni og voru 1.120.000 tonn. Útflutningsverðmætin voru 3,2 milljarðar evra, 458 milljarðar ÍSK sem er aukning upp á 20,6% miðað við fyrstu sjö mánuðina 2021.

Stærstu útflutningsmarkaðir Rússa eru Suður-Kórea, Kína, Holland, Nígería og Japan. Rússnesk stjórnvöld höfðu frumkvæði að því að leita nýrra markaða fyrir rússneskar sjávarafurðir eftir að kínverski markaðurinn lokaðist skyndilega mestan part ársins 2021 í kjölfar Covi-19 faraldursins.

Þetta skilaði þeim árangri að sala á sjávarafurðum til Suður-Kóreu jókst um 35% á árinu 2021, um 70% til Hollands og hvorki meira né minna en 260% til Japans. Þá hefur Kína opnast á ný sem er mikilvægasti útflutningsmarkaður Rússa. Á fyrri hluta þessa árs jókst salan þangað um 67% og verðmætin fóru upp um 50% miðað við fyrstu sex mánuðina 2021.

Rússneskur togari í Barentshafi. FF MYND/ÞORGEIR BALDURSSON