Útflutningsverðmæti sjávarafurða nam ríflega 33 milljörðum króna í desember samkvæmt fyrstu bráðabirgðatölum Hagstofunnar um vöruskipti í mánuðinum sem birtar voru í gærmorgun. Það er 37% aukning í krónum talið frá desember 2021. Frá þessu er greint á vefsíðu SFS.

Aukningin er aðeins minni í erlendri mynt, eða tæp 34%, þar sem gengi krónunnar var að jafnaði ríflega 3% lægra í desember en í sama mánuði á árinu 2021. Það er því óhætt að segja að árið 2022 hafi endað með stæl enda hafa útflutningsverðmæti sjávarafurða í desembermánuði ekki verið meiri eins langt aftur og mánaðartölur Hagstofunnar ná (frá 2002).

Útflutningsverðmæti allra vinnsluflokka hefur aukast á milli ára í desember, að frystum heilum fiski undanskildum. Aukningin er sér í lagi mikil í flokknum „aðrar sjávarafurðir“, en þar er ríflega tvöföldun á milli ára á föstu gengi. Sömu sögu má segja um útflutningsverðmæti lýsis, sem einnig tvöfaldast í verðmætum á milli ára, en það er tekið saman með fiskimjöli á myndinni.

Miðað við ofangreindar tölur nam útflutningsverðmæti sjávarafurða rúmlega 349 milljörðum króna á nýliðnu ári. Það er um 18% aukning í krónum talið á milli ára. Þar sem viðskiptavegið gengi krónunnar var að jafnaði um 3% hærra á árinu 2022 en árið 2021, var aukningin aðeins meiri í erlendri mynt, eða tæp 22%. Á þann kvarða hafa útflutningsverðmæti sjávarafurða aldrei verið meiri á einu ári, jafnvel þótt leiðrétt væri fyrir verðbólgu erlendis og verðmætin þá að raunvirði.