Fyrstu toghlerarnir af þessari gerð voru framleiddir úr 50% endurunnu plasti sem blandað var við nýframleitt plast. Hlutfall endurunnins plast í toghlerunum verður aukið jöfnum skrefum og við gerum ráð fyrir að nýtingin verði yfir 80% þegar upp er staðið. Gerðar hafa verið átaksmælingar á hlerunum og niðurstöðurnar voru þær að átaksþolið er fimmfalt hærra en nauðsynlegt er, að sögn Atla Más.

„Við erum til að byrja með að þróa hlera úr endurunnu plasti fyrir báta sem eru 10-20 metrar á lengd. Fáir falla inn í þann hóp hér á Íslandi en þeim mun fleiri í Afríku og Asíu. Á heimsvísu eru hátt í ein milljón báta af þessari stærð við togveiðar. Markaðurinn er því gríðarlega stór þótt við munum sennilega aldrei ná nema til hluta hans,“ segir Atli Már.

Allt að 25% minni olíunotkun

Send hafa verið þrjú hlerapör til Suður-Englands og í mars fara einnig hlerapör til Írlands, Skotlands, Spánar og Frakklands. Starfsmenn Polar toghlera verða viðstaddir prófanir á þessum stöðum til að tryggja rétta meðferð og gera mælingar og raunsamanburð við eldri toghlera bátanna. Atli Már segir að þeir sem stundi togveiðar á litlum bátum séu á mjög mismunandi stöðum þegar kemur að búnaði eins og toghlerum.

  • Pluto plasthlerarnir um borð í Andvara. Skipstjóri bátsins er Hafþór Halldórsson. Aðsend mynd.

„Á fjölda þessara báta er enn notast við tréhlera. Rekstrarafkoma báta sem draga á eftir úrelta hönnun á toghlerum er alls ekki góð í mörgum tilvikum. Bátarnir eyða of mikilli olíu við togveiðarnar og fara á sama tíma mjög illa með lífkerfið á hafsbotni. Verulega hefur fækkað í þessum flota á síðustu árum vegna lélegrar afkomu.“

Atli Már segir að prófanir á hlerunum hafi leitt í ljós að þeir geti stuðlað að allt 25% minni olíunotkun. Pluto toghlerapar hefur verið í prófunum á Andvara VE. Áður hafði báturinn verið með Neptune stálhlera en útgerð bátsins hefur það góða reynslu af plasthlerunum að þeir verða í notkun eftirleiðis.

Senegal og Kenía

Polar toghlerar eru nú að ljúka könnun á uppsetningu á verksmiðju í Senegal fyrir framleiðslu á Pluto plasthlerum og öðrum vörum til sjávarútvegs. Til þess fékkst styrkur frá utanríkisráðuneytinu sem nýtist jafnt til markaðs- og áreiðanleikakönnunar. Komist hefur á samstarf við endurvinnslufyrirtæki þar í landi.

„Einnig erum við í samstarfi við íslenskt fyrirtæki um samskonar verkefni í Kenía og fleiri löndum. Tækniþróunarsjóður samþykkti að styrkja verkefnið um 50 milljónir króna til tveggja ára.“

Auk þessa hefur NEFCO, samnorræni þróunarsjóðurinn sem leggur áherslu á umhverfisvæn verkefni, veitt hagstætt lán til að styðja við alþjóðavæðingu Pluto verkefnisins, hringrásarhagkerfið, umhverfisvænar togveiðar og draga úr olíunotkun.

  • Hráefni í hlerana er safnað af starfsmönnum endurvinnslufyrirtækis í Kenía. Aðsend mynd .

„Við væntum þess að geta sett upp framleiðslu á hlerum í Dakar í Senegal og sölu og þjónustu á hlerum í samstarfi við heimamenn. Við erum að undirbúa sams konar samstarf í Kenía. Næststærsti bátaflotinn af þessari stærð er í Afríku en stærstur er hann í Asíu. Við erum komnir ágætlega af stað með undirbúning fyrir framleiðslu í Indlandi og hefjum framleiðslu á hlerum þar innan fárra mánaða. Einnig er undirbúningur langt kominn í Kína á vegum verktaka sem hefur framleitt stálhlera fyrir okkur í tólf ár.“

Endurunna plastið sem notað er í framleiðsluna hér á landi kemur frá dönsku fyrirtæki sem meðal annars endurvinnur mikið af netum úr íslenskum fiskitrollum. Til framleiðslunnar verður einnig notað endurunnið plast frá True North í Hveragerði sem endurvinnur meðal annars plast utan af heybaggarúllum. Framleiðsla hleranna fer fram hjá Borgarplasti í Mosfellsbæ.

25 milljónir tonna á ári

„Það er talið að það falli til 25 milljónir tonna á ári af plasti á ári og einungis brot af því er endurunnið. Framleiðsla á Pluto plast hlerum hefst síðar á þessu ári á Indlandi og á Spáni en þar erum við í samstarfshring í kringum bláa hringrásarhagkerfið. Við stefnum í öllum tilfellum að því að nota endurunnið plast frá hverju landi fyrir sig og draga þannig úr kolefnissporinu við flutning á hráefnum. Við erum í samstarfi við endurvinnslufyrirtæki í Kenía þar sem starfa um 200 manns. Á vegum fyrirtækisins eru um 2.000 einstaklingar sem safna plasti og fá greitt fyrir það. Einn af lykilþáttunum í þessu verkefni er að plastrusli sé safnað saman úr fjörum og ám og borgum og bæjum. Það er almenningur sem safnar saman plastinu og þetta er í gangi út um allan heim.“

Fréttin birtist upphaflega í nýsköpunarblaði Fiskifrétta 17. febrúar sl.